Fyrirlestrar og námskeið fyrir kennara

- sérsniðin að þörfum hvers hóps


Fræðimenn Reykjavíkurakademíunnar bjóða kennurum á öllum skólastigum fyrirlestra og námskeið um ýmislegt er tengist menntamálum. Hægt er að sérsníða fræðsluna að þörfum hvers hóps.

Davíð Ólafsson, Sigurður Gylfi Magnússon og Viðar Hreinsson:

Þrír fræðimenn úr ReykjavíkurAkademíunni hafa árum saman rannsakað bókmenningu fyrri alda. Eitt megineinkenni hennar er sú sókn eftir sjálfsmenntun sem Jón Helgason prófessor kallaði ,,fýsn til fróðleiks og skrifta". Þá var oft erfitt að afla sér fróðleiks en nú á dögum er ofgnótt upplýsinga og börn skylduð til að ganga í skóla. Því er forvitnilegt að bera saman þessar ólíku aðstæður og velta fyrir sér hvað verður um þá forvitni sem börnum er eiginleg. Fyrr á öldum öfluðu menn sér gjarnan fróðleiks sjálfir og nú hefur netið skapað áhugaverð skilyrði fyrir slíka sjálfsmenntun.

Davíð Ólafsson sagnfræðingur hefur nýlokið við doktorsritgerð um handritamenningu 19. aldar á Íslandi. Eitt af viðfangsefnum Davíðs er staða menntunar í samfélagi sem enn var að mestu án formlegs skólakerfis. Þrátt fyrir marga ókosti býður handritað efni upp á virkari þátttöku heldur en bókmenning sem einungis byggir á framboði á prentuðu efni sem oft er háð beinni eða óbeinni stýringu. Þeir menntunarkostir sem virk þátttaka í handritamenningunni bauð upp á kallar á spennandi samanburð við vefmenningu samtímans.

Fyrir rúmum áratug gaf Sigurður Gylfi Magnússon út bókina Menntun ást og sorg sem vakti mikla athygli, og ekki síður bókin Bræður á Ströndum sem geymir fjölbreytt sýnishorn af lestri og skrifum tveggja bræðra sem Sigurður fjallaði um í fyrrnefndu bókinni. Menntun, ást og sorg fyrr á tímum eru forvitnileg viðfangsefni. Ákveðnar aðstæður í gamla sveitasamfélaginu sköpuðu þorsta í menntun og þekkingu. Með því að tengja menntaviðleitni við hversdagslíf fólks gefst færi á að nálgast hugarheim þess á nýjan hátt. Það kallar á samanburð við sömu þætti nú á tímum.

Viðar Hreinsson hefur skrifað greinar og haldið fyrirlestra þar sem fróðleiksþorstinn er meginviðfangsefni. Hann myndar mikilvægan þráð í ævisögu Stephans G. Stephanssonar sem út kom fyrir nokkrum árum. Ótal dæmi eru til af börnum og fullorðnum sem höfðu allar klær úti til að læra að lesa og skrifa og afla sér lestrarefnis. Oft ól þetta sjálfsnám af sér einstaklinga sem urðu sjálfstæðir í hugsun og í raun gagnmenntaðir. Oft var glíma þessara einstaklinga við samfélag sitt og ríkjandi hugsunarhátt æði merkileg. Þeir voru í raun nördar síns tíma og það kallar á samanburð við nörda nútímans.

Þessi þrír fræðimenn og Björg Árnadóttir menntunarfræðingur hafa borið saman bækur sínar með það í huga að nýta þessa þekkingu á fróðleiksfýsn fyrri alda, miðla henni til kennara sem gætu nýtt hana í skiptum sínum við fróðleiksfús börn nútímans.


Björg Árnadóttir:

Mary og María

Fyrirlesturinn fjallar um uppeldis- og meðferðarfræðina í söngleikjunum Sound of Music og Mary Poppins. Með tóndæmum verður fjallað um kennslufræðina sem birtist á skýran hátt í þessum verkum. Fyrirlesturinn er hugsaður sem upplyfting og til umhugsunar fyrir alla þá sem fást við uppeldis- og meðferðarstörf.

Hvers vegna eru listir kenndar í skólum?

Fjallað er um hlutverk skapandi greina í skólakerfinu og hvort listir séu kenndar listarinnar vegna eða vegna þess að almennt er talið að ástundum lista auðveldi nemendum annað nám. Hvernig þroskar listnám nemendur og hvernig vinna nemendur og kennarar saman á skapandi hátt? Einkum verður fjallað um kenningar Elliot Eisner og bók hans The Arts and the Creation of Minds.

Fullorðinsfræðsla - fimmta skólastigið

Fimmta skólastigið, fullorðinsfræðsla, er falið skólastig hér á landi enda hafa ekki ennþá verið samþykkt lög um það. Í fyrirlestrinum er farið er svið fullorðinsfræðslu; stefnu stjórnvalda hér á landi í samanburði við önnur lönd, hvað er helst á döfinni og hvert þetta skólastig stefnir. Kennarar og stjórnendur á grunn- og framhaldsskólastigi geta uppgötvað ýmislegt um starf sitt með því að skoða námsþarfir fullorðinna.

Skólinn frá sjónarhóli taparans

Brotthvarf úr skólum á Íslandi er með því mesta sem gerist í Evrópu. Fjallað verður um skólann frá sjónarhópi taparans. Greindar verða orsakir og afleiðingar brotthvarfs úr skólum og sagt frá því hvernig fullorðnir brotthvarfsnemar sem snúa aftur til náms upplifa fyrri skólagöngu. Einnig verða nefndar leiðir fyrir grunn- og framhaldsskólann til að sporna gegn brotthvarfi.

Heimspekin í verkum Astrid Lindgren

Fyrirlestur byggður á bók norsku heimspekinganna Jörgen Gaare og Öystein Sjaastad um heimspekilegt ferðalag um heim sænsku skáldkonunnar Astrid Lindgren. Einnig verður fjallað um gildi þess að lesa fyrir börn.


Fleiri fræðimenn

Upplýsingar um fyrirlestra fleiri fræðimanna verða settar inn á næstu dögum. Sjá einnig aðra fyrirlestra sem kynntir eru á Varpinu.


Nánari upplýsingar veitir Ásthildur Valtýsdóttir, netfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Um Varpið

Varpið er miðlunardeild ReykjavíkurAkademíunnar og var formlega stofnað í janúar 2007.

Varpið sérhæfir sig í miðlunarþjónustu og býður upp á fjölbreytt úrval fyrirlestra, fræðsluerinda og námskeiða. Hjá Varpinu er hægt að panta tilbúna fyrirlestra en auk þess geta félög, samtök og stofnanir leitað til Varpsins um ýmis sérvalin málefni og þekkingu.

varp_allir_600.jpg

Í boði eru alls 38 fyrirlestrar fluttir af 12 fræðimönnum. Hver fyrirlestur er stuttur og hnitmiðaður, miðað er við að hver fyrirlestur sé u.þ.b. 15-20 mín en auk þess er gert er ráð fyrir umræðum í kjölfarið.

Fyrirlestrarnir Varpsins hafa það markmið að:
-    koma hreyfingu á hugann
-    hvetja til gagnrýnnar og skapandi hugsunar
-    efla víðsýni með því að gefa nýja sýn á málefni sem standa okkur nærri
-    vekja upp frekari löngun til þekkingarleitar og nýsköpunar

Til að kynna sér þjónustuna er mögulegt að skoða úrvalið eftir þremur flokkum: fyrirlesurum, fyrirlestrum eða fræðasviðum.

 

Hafa samband

Félög, stofnanir eða fyrirtæki sem hafa hug á að nýta sér þjónustu Varpsins geta leitað upplýsinga á skrifstofu ReykjavíkurAkademíunnar.

Senda má inn beiðni um fyrirlestra, fræðsluerindi og/eða námskeið um ýmis sérvalin málefni með tölvupósti á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Vinsamlegast tilgreinið nafn, síma eða netfang og takið fram hvaða þjónustu þið óskið.

Athugið að óskað er eftir því að flutningur fyrirlestursins fari fram hjá þeim aðila sem óskar eftir þjónustunni, eins og í skólum, á vinnustöðum o.s.frv.

Sveppir og ber í íslenskri náttúru,

gudrun_hallgrimsdottir.jpgFyrirlesari: Guðrún Hallgrímsdóttir

Fræðasvið: Matvælaverkfræði

Lýsing: Náttúra Íslands býr yfir fjölbreyttu hráefni til matvælagerðar. Þessa fjölbreytni má nýta til að skapa íslenskt eldhús, eldhús sem byggir á sérstöðu hvers héraðs, á gamalli matarhefð og á hnattvæðingu matarmenningar. Ber og sveppir eru afbragðs hráefni til matargerðar.
Sveppir eru próteinríkir og hafa oft séð heilu þjóðunum fyrir próteini, t.d. í kjölfar heimsstyrjaldanna á síðustu öld. Í augum þess fólks er þær hörmungar man er Ísland algjört gósenland. Öll undur landsins blikna og þola ekki samanburð við þá himnesku sýn sem blasir við, þá komið er í íslenskt birkikjarr. Þar má finna kúalubba (Lecchinum scabrum), sumstaðar kóngssvepp (Boletus edulis) eða rauðhettu (Leccinum testaco –scabrum) og kantarellur.
Um sveppi á Íslandi má segja líkt og um fugla, það er ekki tegundafjölbreytnin sem gerir þá spennandi heldur magnið og hve auðvelt er að finna þá.
Lítillega er greint frá neyslu sveppa fyrr á öldum, sagt frá helstu sveppum sem nýta má á Íslandi, hvar þeir finnast, hvernig tíndir og meðhöndlaðir.
Samkvæmt þjóðveldislögum máttu menn tína ber upp í sig í annarra eignarlandi, hinsvegar varðaði það sektum að taka þau með sér öðru vísi en innan í sér. Af berjum sem nýta má til matargerðar hafa fundist níu tegundir á Íslandi. Sagt er frá þessum berjum, hvernig þeirra var neytt áður fyrr og þýðingu þeirra fyrir matarræði landsmanna.
Þá er kannað hvaða uppskriftir er að finna í elstu matreiðslubókum og þær bornar saman við berjaneyslu í dag.

Fjaran – gósenland.

gudrun_hallgrimsdottir.jpgFyrirlesari: Guðrún Hallgrímsdóttir

Fræðasvið: Matvælaverkfræði

Lýsing: Náttúra Íslands er rík af fjölbreyttu hráefni til matargerðar.   Þessa fjölbreytni má nýta til að dusta rykið af gömlum réttum sem neytt var hvunndags eða spari, eða til að skapa nýtt íslenskt eldhús sem byggir á gamalli matarhefð og hefur til hliðsjónar hnattvæðingu matarmenningar.  Þá má einnig taka rétti  sem nú eru  alþjóðlegir og matreiða þá úr því hráefni sem finnst í fjörunni.
Þegar rætt eru íslenskt hráefni er oftast verið að tala um fisk úr sjónum, íslenskt lambakjöt, villta fugla og ýmsan gróður.  En hvergi er hægt að finna jafn fjölbreytt hráefni til matargerðar og í fjörunni. Fjörunytjar má gróflega flokka í þrennt, þ.e. þaragróður, skeljar og skelfisk og strandjurtir. 
Greint er frá helstu tegundum þaragróðurs, sagt frá því hvernig hans var aflað, hvernig varðveittur og  etinn áður fyrr.  Þá er komið með nokkrar ábendingar um hvernig mætti nýta þaragróður til matargerðar í dag.
Í flokki skelja og skelfisks er sagt frá kræklingi, öðu, kúfskel, beitukóngi, króksskel, hörpudiski, sniglum og bobbum.
Að síðustu er fjallað um strandjurtir, s.s. skarfakál, fjöruarfa, fjörukál, sæhvönn og marhálm.

FaLang translation system by Faboba