Björg Árnadóttir

 

bjorg_arnadottir.jpg

Björg er myndlistarkennari og blaðamaður að mennt og með meistaragráðu í menntunarfræðum. Hefur einkum starfað við fullorðinsfræðslu.

Jón Yngvi Jóhannsson

jon_yngvi_johannsson.jpgMenntun: M.A. í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands 1998.

Helstu störf: Jón Yngvi hefur starfað sem gagnrýnandi í dagblöðum og sjónvarpi undanfarin tíu ár og hefur ritað greinar um íslenskar samtímabókmenntir í íslensk og erlend tímarit. Hann er einnig einn af höfundum nýrrar íslenskrar bókmenntasögu þar sem hann skrifar m.a. um íslenska skáldsagnagerð frá 1970 til samtímans og bókmenntir og stjórnmál á fjórða áratug tuttugustu aldar.

Helstu áhuga- og rannsóknarsvið: Íslensk og norræn bókmenntasaga 19. og 20. aldar.

Fyrirlestrar:

Eftir flóðið. Íslenskar bókmenntir síðasta árs.
Litið er til baka yfir nýliðið jólabókaflóð og fjallað um íslenskar bókmenntir ársins 2008 í víðu samhengi, þær settar í samhengi við íslenska bókmenntasögu og hræringar í alþjóðlegum bókmenntaheimi.

Íslensk útrás 1912-1950.
Fjallað er um þá íslensku höfunda sem ruddu sér til rúms á norrænum og alþjóðlegum bókmenntamarkaði í upphafi tuttugustu aldar, einkum þá sem skrifuðu á erlendum málum eins og Gunnar Gunnarsson og Jóhann Sigurjónsson sem skrifuðu á dönsku, Kristmann Guðmundsson sem skrifaði á norsku og Jón Sveinsson (Nonna) sem skrifaði á þýsku.

Markaður, ímynd, gagnrýni.
Fjallað er um vinsæla íslenska skáldsagnahöfunda og verk þeirra í samhengi við flókna sambúð þeirra við markaðinn. Einkum verður sjónum beint að verkum Hallgríms Helgasonar og Ólafs Jóhanns Ólafssonar sem hafa hvor á sinn hátt verið bæði viðföng og gerendur í margvíslegri ímyndarsmíð á vettvangi íslenskrar menningar og bókamarkaðar.

Norrænar samtímabókmenntir
Rætt um norrænar samtímabókmenntir með áherslu á þær bækur sem tilnefndar eru til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Viðar Hreinsson

vidar_hreinsson.jpgMenntun: BA í íslensku frá Háskóla Íslands 1981. Mag. art í bókmenntafræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1989.

Helstu störf: Háskólakennsla og fræðistörf. Framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar.

Helstu áhuga- og rannsóknarsvið: Íslensk bókmentasaga frá  upphafi til enda, hugmyndasaga, túlkunarfræði, Íslendingasögur, fornaldarsögur Norðurlanda, íslensk bókmenning, dreifbýlismenning, vesturísleskar bókmenntir, Stephan G. Stephansson, húsdýr í bókmenntum og menningu.

Fyrirlestrar:

Hasar og klám.
Um þær bráðskemmtilegu fornsögur sem ritaðar voru á 14 öld og lengst af voru taldar ómerkilegar. Rakin verða dæmi úr nokkrum snilldarlega skrifuðum skemmtisögum frá 14. öld, til að mynda Bósa sögu og Göngu-Hrólfs sögu.

Vandræðaunglingar til forna.
Um þá sérkennilegu manngerð fornsagnanna sem nefdust kolbítar. Þeir lágu í öskustó í skjóli mæðra sinna framundir fullorðinsár en risu þá upp og urðu litríkar hetjur.

Kynlegir kvistir á 17. öld.
Um Jón lærða, Æra-Tobba, Jón Indíafara og fleiri furðulega höfunda fyrri alda.

Harði diskurinn og vinnsluminnið á 19. öld.
Um alþýðuhöfunda á 19. öld, sem léku sér með bragform og hugsun af ótrúlegri snilld (andlegt vinnsluminni) og bjuggu yfir ókjörum af sérkennilegum fróðleik (harði diskurinn).

Friðarsinninn mikli.
Stephan G. snerist harkalega gegn þátttöku Vestur-Íslendinga í fyrri heimsstyrjöldinni og lenti í furðulegustu útistöðum árum saman fyrir þær sakir. Saga hans er fróðleg fyrir friðarsinna nútímans.

Frá kúnni Síbylju til Guttorms heitins í Húsdýragarðinum.
Íslensku húsdýrin í mennningu og bókmenntum að fornu og nýju.

Af krossfestingu og upprisu sauðkindarinnar.
Um djúpa og víðfeðma merkingu sauðkindarinnar í menningarsögu heimsins og Íslands.

Jón Rúnar Sveinsson

jon_runar_sveinsson.jpgMenntun: BA í félagsfræði, Háskóli Íslands 1975 og Phil. Lic. í félagsfræði, Uppsalir 1999.

Helstu störf:
Sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Birfröst frá 2007.
Sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni 2005-2007.
Sérfræðingur á Borgarfræðasetri Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar 2001-2005.
Sérfræðingur hjá Íbúðalánasjóði 1999-2001.
Sérfræðingur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins 1984-1999.
Hálft starf sem sérfræðingur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins 1982-1984.
Launað doktorsnám í félagsfræði við Háskólann í Lundi 1981-1984.

Helstu áhuga- og rannsóknarsvið: Félagsfræðileg umfjöllun um húsnæðismál og borgarfræði

Fyrirlestrar:

Þróun húsnæðismála í upphafi nýrrar aldar: Bankarnir, Íbúðalánasjóður, velferðin og viðskiptafrelsið.
Íbúðalánasjóður kom í stað Húsnæðisstofnunar ríkisins 1. janúar 1999, almennar lánveitingar jukust til muna og 2004 hækkuðu lán sjóðsins í 90%. Bankarnir telja að ríkisstofnun eigi ekki að veita almenn lán og komu á fullum krafti inn á lánamarkaðinn í ágúst 2004 og hafa nú náð til sín stórum hluta markaðarins. Úrskurður EFTA-dómstólsins frá apríl 2006 bendir til þess að ríkisvaldið neyðist til að endurskoða hið víðtæka hlutverk Íbúðalánasjóðs.

Borgríkisþróun suðvesturhornsins: munu 80% landsmanna búa í Faxaborg árið 2015?
Um 2/3 hlutar landsmanna búa nú á hinu eiginlega höfuðborgarsvæði, en ef svæðið um eða innan klukkustundar aksturstíma frá Reykjavík er athugað búa nú þegar á því svæði 75% landsmanna og sú tala verður að öllum líkindum orðin 80% innan nokkurra ára. Þýðir þetta að “gamla” byggðastefnan sé úrelt? Hvernig gæti “ný” byggðastefna litið út? Er það kannski frekar borgarstefna? 

Hvers vegna byggja Íslendingar meira og stærra en aðrar þjóðir?
Á verðbólguárunum var húsnæðið bankabók margra Íslendinga og meðalstærð húsnæðis hér á landi fór ört vaxandi og varð einhver sú hæsta í heimi, sömu sögu er að segja um meðalfermetrafjölda á íbúa. Á 10. áratug liðinnar aldar dró hins vegar verulega úr íbúðabyggingum samhliða stöðnum á húsnæðismarkaði. Það sem af er 1. áratug nýrrar aldar hefur svo orðið gífurleg aukning í nýbyggingum samhliða verðssprengingu á húsnæðismarkaði. Á sama tíma er hlutfallslega mun minna byggt í  nágrannalöndum okkar.

Guðrún Hallgrímsdóttir

gudrun_hallgrimsdottir.jpgMenntun: Matvælaverkfræðingur frá Humboldt Universität, Berlin, 1968   
Nám í umhverfisstjórnun og gæðastjórnun hjá BSI og David Hutchins Associates 1988
Kennsluréttindi Háskóli Íslands 1994
Leiðsögumannsréttindi 2004

Helstu störf: Forstöðumaður rannsóknastofu Búvörudeildar Sambandsins 1969 – 1977
Industrial Development Officer, Unido , Vínarborg 1977- 1979
Deildarstjóri Iðnaðarráðuneyti 1979 – 1985
Forstöðumaður Ríkismati sjávarafurða 1985 – 1992
Verkefnisstjóri Fræðsludeild Iðntæknistofnunar, námsgagnagerð, umsjón með námskeiðum og kennsla á námskeiðum og við Tækniskólann, 1994 – 2004

Helstu áhuga- og rannsóknarsvið: Þjóðleg matarmenning, notkun þjóðlegrar menningar í ferðaþjónustu, lífræn framleiðsla og vottun, sjálfbærar fiskveiðar og vottun.

Fyrirlestrar:

Fjaran – gósenland.
Náttúra Íslands er rík af fjölbreyttu hráefni til matargerðar.   Þessa fjölbreytni má nýta til að dusta rykið af gömlum réttum sem neytt var hvunndags eða spari, eða til að skapa nýtt íslenskt eldhús sem byggir á gamalli matarhefð og hefur til hliðsjónar hnattvæðingu matarmenningar.  Þá má einnig taka rétti  sem nú eru  alþjóðlegir og matreiða þá úr því hráefni sem finnst í fjörunni.
Þegar rætt eru íslenskt hráefni er oftast verið að tala um fisk úr sjónum, íslenskt lambakjöt, villta fugla og ýmsan gróður.  En hvergi er hægt að finna jafn fjölbreytt hráefni til matargerðar og í fjörunni. Fjörunytjar má gróflega flokka í þrennt, þ.e. þaragróður, skeljar og skelfisk og strandjurtir. 
Greint er frá helstu tegundum þaragróðurs, sagt frá því hvernig hans var aflað, hvernig varðveittur og  etinn áður fyrr.  Þá er komið með nokkrar ábendingar um hvernig mætti nýta þaragróður til matargerðar í dag.
Í flokki skelja og skelfisks er sagt frá kræklingi, öðu, kúfskel, beitukóngi, króksskel, hörpudiski, sniglum og bobbum.
Að síðustu er fjallað um strandjurtir, s.s. skarfakál, fjöruarfa, fjörukál, sæhvönn og marhálm.

Svepppir og ber í íslenskri náttúru.
Náttúra Íslands býr yfir fjölbreyttu hráefni til matvælagerðar.  Þessa fjölbreytni má nýta til að skapa íslenskt eldhús, eldhús sem byggir á sérstöðu hvers héraðs, á gamalli matarhefð og á hnattvæðingu matarmenningar.  Ber og sveppir eru afbragðs hráefni til matargerðar.
Sveppir eru próteinríkir og hafa oft séð heilu þjóðunum fyrir próteini, t.d. í kjölfar heimsstyrjaldanna á síðustu öld. Í augum þess fólks er þær hörmungar man er Ísland algjört gósenland.  Öll undur landsins blikna og þola ekki samanburð við þá himnesku sýn sem blasir við, þá komið er í íslenskt birkikjarr. Þar má finna kúalubba (Lecchinum scabrum), sumstaðar kóngssvepp (Boletus edulis) eða rauðhettu (Leccinum testaco –scabrum) og kantarellur.
Um sveppi á Íslandi má segja líkt og um fugla, það er ekki tegundafjölbreytnin sem gerir þá spennandi heldur magnið og hve auðvelt er að finna þá.
Lítillega er greint frá neyslu sveppa fyrr á öldum, sagt frá  helstu sveppum sem nýta má á Íslandi, hvar þeir finnast, hvernig tíndir og meðhöndlaðir.
Samkvæmt þjóðveldislögum máttu menn  tína ber upp í sig í annarra eignarlandi, hinsvegar varðaði það sektum að taka þau með sér öðru vísi en innan í sér.   Af berjum sem nýta má til matargerðar hafa fundist níu tegundir á Íslandi.  Sagt er frá þessum berjum, hvernig þeirra var neytt áður fyrr og þýðingu þeirra fyrir matarræði landsmanna.
Þá er kannað hvaða uppskriftir er að finna í elstu matreiðslubókum og þær bornar saman við berjaneyslu í dag.

FaLang translation system by Faboba