ReykjavíkurAkademían kynnir með stolti nýjan samstarfssamning við Reykjavíkurborg sem undirritaður var 29. september síðastliðinn. Markmið samningsins er að greina óleyfilega búsetu (þ.e. búsetu í atvinnuhúsnæði) í Reykjavík með áherslu á tilkomu hennar og birtingarmynd, aðbúnað og réttindi íbúa, m.a. með tilliti til mansals og réttinda verkafólks. ReykjavíkurAkademían hefur umsjón með verkefninu og hefur ráðið Jón Rúnar Sveinsson, félagsfræðing, í tímabundna stöðu verkefnisstjóra. Niðurstöður verða svo kynntar á ráðstefnu um óleyfilega búsetu föstudaginn 17. nóvember, kl. 13:00-17:00.
Dagskrá og efni ráðstefnunnar verða kynnt fljótlega á heimasíðu RA.
PLÁSS FYRIR ALLA?
Fyrsta málþing vetrarins í málþingsröð ReykjavíkurAkademíunnar, Hugmyndir 21. aldarinnar, verður haldið laugardaginn 16. september næstkomandi í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 2, kl. 11:00-14:00. Að þessu sinni er viðfangsefnið staða kvenna og rými þeirra til virkrar þátttöku í atvinnulífi, stjórnmálum og samfélagslegri umræðu. Á stokk stíga þrjár konur sem hafa lokið doktorsprófi á síðustu fimm árum, dr. Sigrún María Kristinsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur; dr. Ásrún Matthíasdóttir, menntunarfræðingur, og dr. Auður Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur. Umræðum stjórnar dr. Íris Ellenberger, sagnfræðingur.
Lesa meira