Sjöunda Öndvegisfóður vetrarins var 16. janúar og að þessu sinni var það Ian Watsson sem fræddi viðstadda á "Bókafrelsunar" átaki sem hann vinnur að, en hann talaði m.a. um að hér áður og fyrr hafi tilgangur bókaútgáfu verið tvennskonar, annarsvegar til að græða og hinsvegar til að miðla og eina leiðin til þess var að gefa efnið út á pappír. Í dag er þessu öðruvísi farið, nú er hægt að miðla þekkingu (fræðibókum) frítt ásamt því að bjóða lesandanum að kaupa bókina á pappír gegn vægu gjaldi. Að kaupa bók á pappír þarf því ekki lengur að vera forsenda þess að geta lesið bókina.

Sem starfsmaður á Bókasafni Dagsbrúnar hefur Ian aðstoðað höfunda eldri bóka við að koma þeim í opinn aðgang, en margir höfundar hafa áhuga á að endurskoða útgáfuform bóka sinna, m.a. með því að dreifa þeim endurgjaldslaust. Ein leið til þess er að höfundar geta beðið um ókeypis rafræna dreifingu á þeim bókum sem þegar hafa verið skannaðar, til þess þarf að fylla út eyðublað og senda inn til HathiTrust sem er samstarfsverkefni stærstu háskólabókasafnanna í Bandaríkjunum. Bókasöfnin hafa, í samvinnu við Google, skannað inn miljónir bóka á síðustu árum, þ.á.m. margar íslenskar bækur. Einnig geta höfundar beðið háskólabókasöfnin um að skanna bók sína.

Að lokum hvatti Ian viðstadda til að huga að því hvernig þeir gefa út bækur sínar í framtíðinni, að reyna að gera það á sem aðgengilegastan hátt þannig að það gagnist bæði lesendum og höfundum fræðibóka, ekki setja hindranir á leið þeirra sem vilja kynnast skrifum okkar segir hann.

 

 

 

 

FaLang translation system by Faboba