„Við gátum ekkert gert." Bankahrunið, vægi einstaklinga og hinn þungi straumur sögunnar.

 

Var bankahrunið á Íslandi 2008 óumflýjanlegt? Var það virkilega svo að einstaklingum var ofviða að afstýra því? Og hafi svo verið, hvenær hættu menn þá að geta mótað söguna og urðu í staðinn leiksoppar hennar? Í erindinu verða útlistanir valdhafa, bankamanna og annarra á eigin áhrifaleysi í aðdraganda hrunsins raktar. Jafnframt verða þær settar í samhengi við kenningar um vægi einstaklinga og tilviljana annars vegar og hins vegar óhjákvæmilega þróun þar sem fólk á í raun engra kosta völ.

Með öðrum orðum verður velt vöngum yfir því hvort bankahrunið sé gott dæmi um það að sögunni vindi fram eins og skriðjökli niður fjallagljúfur eins og Jónas Jónsson frá Hriflu lýsti marxískri söguskoðun í fyrirlitningartón - eða hvort einstaklingar (og þá einkum valdhafar) ráði rás viðburða til góðs eða ills. Ætti kannski að skrá sögu bankahrunsins eins og Michael Foot sagði að Winston Churchill hefði illu heilli gert í ritum sínum um seinni heimsstyrjöldina, að mestu hefðu ráðið „villtir draumar vondra manna"?
FaLang translation system by Faboba