Davíð Ólafsson sagnfræðingur fjallaði um Jón Espólín, Gísla Konráðsson og Sighvat Grímsson Borgfirðing.

"Á samverutíma okkar Gísla Konráðssonar í Flatey (1861-1867), spurði ég hann eitt sinn, hvort hann hefði aldrei ritað æfisögu sína, að dæmi Espólíns, og sagði hann mér þá, að svo hefði verið, ...".

Þessi stutta klausa úr formála Sighvats Grímssonar Borgfirðings að sjálfsævisögu Gísla Konráðssonar tengir saman líf og sögur þriggja manna sem lifðu á hinni svokölluðu löngu nítjándu öld og gerðu, hver á sinn hátt, bókmenntalega iðkan að hverfiás sinnar tilveru. Hún gefur vísbendingu um samkennd og sameiginlega sjálfsmynd þriggja manna af þremur kynslóðum og af ólíkri efnahags- og félagslegri stöðu, og leggur drög að óeiginlegri ættrakningu þeirra sjálfra og annarra samtímamanna og sporgöngumanna í karllegg íslenskrar (alþýðu)menningar.

Einfaldasta og skírasta birtingarmynd þessa "menningarlega boðhlaups“ eða "ættrakningar" er ritunar- og útgáfusaga sjálfsævisagna þeirra þriggja. Allir rituðu þeir sjálfsævisögur um eða eftir miðjan aldur sinn, allar hafa þær verið prentaðar og gefnar út í hefðbundnum skilningi. Hins vegar var enginn þessara texta gefinn út á líftíma sjálfsævisöguritarans og því var enginn þeirra að fullu frágenginn undir prentun frá hendi söguritara og viðfangsefnis. Frumkvæði og framkvæmd útgáfu textanna er því í öllum tilvikum í höndum annarra. Í tveimur tilvikum er það sporgöngumaður og vinur ritarans sem kemur með vikum hætti að útgáfunni og í raun má segja að þannig komi annar eða aðrir höfundar komi með umtalsverðum hætti að tilurð verksins eins og þar birtist í prentuðum útgáfum.  Í þessu spjalli verður leitast við að (í)grunda þessi rit og tilurð þeirra í því sniðmengi handrita- og prentmiðlunar sem seja má að einkennt hafi bókmenningu nítjándu aldar á Íslandi.

FaLang translation system by Faboba