ingimar

Í Öndvegisfóðri þann 9. apríl síðastliðinn fjallaði Ingimar Einarsson um alþjóðavæðingu heilbrigðiþjónustu.

Heilbrigðisstofnanir á Íslandi hafa þegar hafið innreið sína á alþjóðlegan heilbrigðismarkað þó í litlum mæli sé. Nokkrir tugir sjúklinga frá Grænlandi og Færeyjum njóta þjónustu Landspítalans á ári hverju og hluti viðskiptavina augnlæknastöðva, tæknifrjóvgunar-stöðvarinnar ART Medica og psoriasissjúklinga Bláa Lónsins er af erlendu bergi brotninn. Enn sem komið er leita sennilega fleiri íslenskir sjúklingar sér eiginlegrar læknisþjónustu erlendis en erlendir sjúklingar sem koma hingað í slíkum erindagjörðum.

Áform hafa verið uppi um að bjóða erlendum borgurum upp á meiri heilbrigðisþjónustu hér á landi og hefur einkum verið rætt um liðskiptaaðgerðir, offituaðgerðir og endurhæfingu. Bandarískir ráðgjafar telja að íslensk heilbrigðisþjónusta eigi helst möguleika á því að hasla sér völl á sviðum sem státa af góðum árangri, s.s. hjartalækningum og bæklunarlækningum.

Í fyrirlestrinum var m.a. fjallað um hvort forsendur séu fyrir því að ráðast í að byggja upp heilbrigðisþjónustu í tilteknum sérgreinum fyrir erlenda borgara. Ekki er útilokað að slíkt megi gera á löngum tíma, en víst er að þjónusta af þessu tagi verður að uppfylla ýtrustu gæðakröfur og eiga sér bakhjarl í þeirri heilbrigðisþjónustu sem fyrir er í landinu.

FaLang translation system by Faboba