ragnheidurolafs

Í Öndvegisfóðri dagsins var það Dr. Ragnheiður Ólafsdóttir sem fjallaði um áhrif kvæðamannafélags Iðunnar á rímnahefðina.

Fyrirlesturinn er byggður á doktorsritgerð Ragnheiðar og fjallar um félagsleg og
tónlistarleg áhrif Kvæðamannafélagsins Iðunnar á rímnahefðina. Kvæðamannafélagið
Iðunn var stofnað í Reykjavík 1929, ári áður en Alþingishátíðin var haldin á
Þingvöllum. Getum er leitt að því að stofnun Iðunnar hafi komið til vegna áhrifa
umræðna í dagblöðum og manna á meðal um væntanlega Alþingishátíð, en einnig
vegna þess að landsbyggðarfólkinu sem stóð að Iðunni hafi þótt kveðskaparhefðin
mikilvægur hluti af því að vera Íslendingur og viljað hefja kveðskap til vegs og
virðingar í borgarsamfélagi samtímans. Stofnfélagar Iðunnar voru allflestir aðfluttir,
margir úr Vestur-Húnavatnssýslu og þar á meðal fjögur systkin sem voru mjög
áhrifamikil innan félagsins. Iðunn skipti kveðskaparhefðinni í tvennt, vísur og
rímnalög. Nefnd starfaði fyrir hvort efni um sig, en hafði ólíku að sinna. Vísnanefndin
safnaði öllum vísum sem félagar létu frá sér, meðan rímnalaganefndin sá um að
‘bjarga’ þeim rímnalögum sem félagarnir kunnu. Vísnagerð var álitin sjálfsögð og
voru félagar hvattir til að yrkja, en þeir sem vildu leika sér með rímnalögin fengu á
baukinn, sérstaklega þeir sem vildu kveða við undirleik hljóðfæra. Til grundvallar
tónlistarhluta rannsóknarinnar liggja bók Kvæðamannafélagsins, Silfurplötur Iðunnar
(2004) og rímnakaflinn í Íslenzkum þjóðlögum (1906-1909) eftir Bjarna Þorsteinsson,
þessar tvær aðalheimildir um stemmur sem til eru á prenti. Fjallað verður um þann
mun sem er á bókunum tveimur og helstu niðurstöður rannsóknarinnar.


Ragnheiður Ólafsdóttir lauk doktorsnámi frá Australian National University í
Canberra 2011 með ritgerðinni Deep Freeze: The Social and Musical Impact of the
Iðunn Society on the Icelandic Rímur. Ragnheiður fæddist í Borgarnesi 1960, lauk
prófi frá tónmenntakennaradeild Kennaraháskóla Íslands og kenndi og stjórnaði
kórum á Íslandi til 1997. Fór þá til Noregs, lagði stund á tónlistarfræði og
þjóðlagasöng við Háskólann í Osló og flutti þaðan til Ástralíu 2001, eftir að hafa rekið
endahnútinn á langa samvinnu við Þórarin Hjartarson um skáldið Pál Ólafsson, með
útgáfu hljómdisksins Söngur riddarans. Ragnheiður býr nú í Reykjavík og starfar
sjálfstætt við tónlist og rannsóknir, og hjá Rauða krossinum.

Greinar eftir hana um
rímnahefðina hafa birst á ensku og íslensku í eftirtöldum útgáfum:

  • 2013: “Kveðskaparlistin”, Vefsíða Kvæðamannafélagsins Iðunnar, 17. júlí 2013. Fyrirlestur.
  • 2012: “Íslensk rímnahefð: Samanburður á stemmum úr tveimur prentuðum heimildum”, SÓN Tímarit um óðfræði, 10. hefti 2012, bls. 169-187.
  • 2008: “‘Pride and Prejudice’: The preservation of the Icelandic rímur tradition.” Yearbook for Traditional Music, pp. 104-116.
FaLang translation system by Faboba