í Þórunnartúni
ReykjavíkurAkademína er fræðasamfélag sem samanstendur af einstaklingum sem sinna verkefnum sínum, hvort sem eru rannsóknir, bókaskrif, kennsla, námskeiðahald eða annað. Þeir kunna vel að meta hið þægilega, þverfaglega andrúmsloft, líflegar umræður, fyrirlestra og kynningar á hinum ýmsu rannsóknarverkefnum, sem stöðugt eru í gangi.
ReykjavíkurAkademían er staðsett á 2. hæð í Þórunnartúni 2, í Reykjavík. Þar eru rúmlega 40 vinnupláss í 20 skrifstofum sem félagsmenn í ReykjavíkurAkademíunni geta leigt út til lengri eða skemmri tíma. Skrifstofurnar eru frá 11-25 fermetrar að stærð, flestum deila tveir eða fleiri en eitthvað er um einstaklingsskrifstofur. Innifalið í leigu á skrifstofu og fyrirtaks rannsóknaaðstöðu er eftirfarandi:
-
- Þráðlaust net, prentari og skanni
- Aðstoð við að koma afurðum starfsins á framfæri við fjölmiðla og almenning
- Aðgangur að fundarherbergi, eldhúsi og ráðstefnusal án endurgjalds
- Þátttaka í fjölfaglegu samstarfi
- Möguleiki á að sækja um framlag úr þeim sjóðum sem ReykjavíkurAkademían kann að hafa yfir að ráða hverju sinni til að styrkja einstök verkefni
- Möguleiki á þátttöku í verkefnum sem ReykjavíkurAkademían tekur að sér
Nánari upplýsingar fást á skrifstofu Akademíunnar. Símanúmer skrifstofu er 562 8565 og netfang [email protected]. Til að sækja um skrifstofu þarf að fylla út eyðublaðið “Umsókn um vinnuaðstöðu” hér neðar.
Akademónar
Einstakir fræðimenn koma sér fyrir á skrifstofum til að sinna verkefnum sínum, hvort sem eru rannsóknir, bókaskrif, kennsla, námskeiðahald eða annað. Þeir kunna vel að meta hið þægilega, þverfaglega andrúmsloft, líflegar umræður, fyrirlestra og kynningar á hinum ýmsu rannsóknarverkefnum, sem stöðugt eru í gangi.
Allar tegundir fræðimanna eiga sér aðsetur í RA, fólk í BA og meistaranámi, fólk í doktorsnámi við innlenda og erlenda háskóla, vísindamenn sem hafa lokið námi á sínu sviði og vinna að verkefnum á sviði hug- og félagsvísinda og fræðiritahöfundar, svo eitthvað sé nefnt.
Stofnanir, félög tengd hug- og félagsvísindum og fyrirtæki koma sér fyrir í ReykjavíkurAkademíunni til að njóta nálægðar við hið fjölbreytta samfélag fræðimanna, sem fljótlegt er að leita til með hverskonar verkefni og viðvik. Auðvelt er að byggja upp rannsóknarhópa og hvers konar vinnuhópa með litlum fyrirvara.
Styrktarsamningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins og RA frá árinu 2018 kveður á um að RA veiti háskólastúdentum í framhaldsnámi, hérlendis sem erlendis, aðstoð og aðstöðu eftir föngum og veiti einnig samstarfsfélögum RA ráðgjöf og upplýsingar um fjármögnunarmöguleika, styrkumsóknir, rekstur rannsóknarverkefna og samstarfsmöguleika við fræðimenn innanlands sem utan. Síðustu ár hefur því verið rekin sérstök aðstaða fyrir framhaldsnema í erlendum sem og innlendum háskólum þar sem þeir fá tímabunda aðstöðu og aðgang að samfélagi RA á meðan þeir ljúka við lokaverkefni sín.
Maður er manns gaman
Maður er manns gaman og af og til, reyndar nokkuð oft, er slett úr klaufunum í Þórunnartúni.
Vinnuvikan hefst með “skvaldurstund” á mánudagsmorgnum og lýkur seinni partinn á föstudögum með sælustund sem stundum er brotin upp með upplestri, getraunum og söng. Auk þessa er af og til skipulagðar hópferðir á tónleika, í leikhús og gönguferðir á söguslóðir í nágrenni Reykjavíkur.
Í öndvegi.
Reglulega eru haldnir súpufundir í hádeginu. Þar sem rædd eru málefni Akademíunnar eða kynnt og rætt eitt af mörgum (rannsóknar)verkefnum sem stöðugt er í gangi.
Á döfinni er fréttabréf sem sent er út til þeirra félagsmanna RA sem vilja fylgjast með því helsta sem er að gerast í Þórunnartúni.
Árlega eru farnar haust- og vorferðir sem eru skipulagðar af félaginu og auk þess er jólagleði árviss viðburður. Þórunnarblót er haldið í byrjun febrúar til heiðurs Þórunni Jónassen (1850-1922) sem var ein fjögurra kvenna sem fyrstar tóku sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908.
Vinnuaðstaða hjá AkureyrarAkademíunni
ReykjavíkurAkademían og AkureyrarAkademían hafa gert með sér samkomulag um að þau sem leigja vinnuaðstöðu á hvorum stað fyrir sig geta fengið tímabundinn aðgang að vinnu- og fundaraðstöðu í hinni Akademíunni. Nánari upplýsingar má fá á skrifstofum Akademíanna.