1. Forsíða
  2.  » 
  3. Miðstöð fræðafólks
  4.  » Fræðasamfélagið

Fræðasamfélagið

Fræðasamfélagið, hlutar þess og heild

Þekkingarsköpunin sem á sér stað innan hug- og félagsvísinda er ein af undirstöðum íslensks fræða-, mennta- og menningarlífs. Hún leggur grunn að fjölbreyttri og frjórri samfélagsumræðu, stuðlar að auknum sjálfsskilningi og hvetur til gagnrýninnar hugsunar. Þar í liggur styrkur og samfélagslegt hlutverk fræðasamfélagsins. Að auki þá eru afurðir rannsókna og þekkingarmiðlunar á sviði hug- og félagsvísinda dýrmætar fyrir menntakerfið, listir og menningu í víðum skilningi og mikilvægur efniviður nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs.

Þrátt fyrir fjölþætt og mikilvægt hlutverk er staða hug- og félagsvísinda í íslensku samfélagi að sumu leyti veik og fræðasamfélagið dreift og skipt eftir starfsvettvangi innan og utan háskólanna og eftir sérhæfingu fræðafólksins. Höfuðvígi rannsókna og kennslu fræðagreinanna er við Háskóla Íslands en auk þess sinna aðrir háskólar landsins og einstakar opinberar stofnanir afmörkuðum greinum hug- og félagsvísinda. Veigamikill hluti fræðasamfélagsins er borinn uppi af fræðafólki sem starfar sjálfstætt. Saman mynda fræðasamfélagið innan og utan háskólana órofa heild og þar á milli flæðir fólk, hugmyndir og þekking. Það er mikilvægt að fræðasamfélagið sameini krafta sína þegar við á og að hugað sé að því að tækifæri fræðafólksins til opinberra rannsóknastyrkja séu jöfn óháð stöðu á vinnumarkaði.

Hlutverk fræðasamfélagsins utan háskólanna

Fræðasamfélagið utan háskólanna er í senn skilvirkt og sveigjanlegt og flest fræðafólk sem á annað borð velur að starfa að rannsóknum og þekkingarmiðlun starfar sjálfstætt á einhverjum tímapunkti enda fáir ef nokkrir aðrir möguleikar í boði utan háskólanna og annarra opinberra stofnana. Tilvist þess er forsenda þess að margir ungir rannsakendur fái til fulls nýtt menntunn sína og þekkingu (sem er kostuð af samfélaginu og fengin úr innlendum og erlendum háskólum). Sem sjálfstæðir fræðimenn þroskast þeir og byggja upp sérþekkingu og tengsl sem aftur mynda grundvöll áframhaldandi fræðaiðkunar jafnt utan og innan háskólanna. Einnig skilar sér sérþekking fræðafólks sem starfar sjálfstætt til háskólanna og samfélagsins alls í gegnum stundakennslu, tímabundnar rannsóknastöður, leiðsögn stúdenta og viðburði á vegum skólanna. 

Fræðasamfélagið utan háskólanna er einnig skjól fyrir nýjar hugmyndir og þekkingu sem hverju sinni rýmist ekki innan hinna opinberru háskóla en eru samfélaginu mikilvæg. Rannsóknarsviðin eru oft fjölbreytt og sjónarhornin önnur og vel þekkt að nýjar hugmyndir fæðast gjarnan á jaðrinum. Stærra fræðasamfélag nær að skoða fleiri og fjölbreyttari kima samfélagsins, auk þess sem rödd fræðanna heyrist víðar. Þá má ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd að öll vísindi nærast á samtali við mótaðila og gagnrýnin umræða er grunnur þeirra. Ólík sjónarhorn og mótrök eru mikilvæg svo umræðan dýpki og verði trúverðugri.

Verkefnin og afurðir fræðafólks sem starfar utan háskólanna að rannsóknum og þekkingarmiðlun eru mjög fjölbreytt.

Ósýnileiki fræðigreina

Í heimsfaraldri kórónuveirunnar kom skýrt í ljós hversu berskjaldað fræðafólk sem starfar sjálfstætt er. Atvinnumarkaður þess hvarf án þess að hrunið fangaðist upp í hagtölum eða að aðgerðir stjórnvalda sem beindust að ólíkum atvinnugreinum næðu að bæta það upp. Og ekki urðu stjórnvöld við tilmælum stjórnar ReykjavíkurAkademíunnar vorið 2020 um að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs á fræðafólkið með því að stækka Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna til samræmis við stækkun Launasjóðs íslenskra listamanna, Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

Hverju sætir? Líkleg skýringin er sú að sem skilgreindur hópur er stéttin varla til sem hefur meðal annars með það að gera að hópurinn á sér hvorki sameiginlegan menntunar eða starfstitil. Listamaður er listamaður óháð sérhæfingu, sama á við um lækna en fræðimaðurinn merkir sig heldur lærdómstitli eða starfsvettvangi. Hann er sagnfræðingur ekki fræðimaður, prófessor, ekki fræðimaður.

Árið 2021 hóf ReykjavíkurAkademían að safna upplýsingum og greina orsakir þess að starfsemi fræðasamfélagsins utan háskólanna fangast ekki upp í hagtölum og sést hvorki í áherslum Vísinda- og tækniráðs eða í stefnumótun stjórnvalda. Verkefninu er skipti í fjögur jafnmikilvæg undirmarkmið sem eru: að skilgreina fræðafólkið og fylkja liði, að styrkja rannsóknainnviði og -umhverfi, að skoða hagræn áhrif af starfsemi fræðafólksins og að lokum að skoða stöðuna á vinnumarkaði. Skörun er á milli undirmarkmiðanna og unnið samhliða að þeim öllum. Ráðuneyti, stofnanir, félög og einstaklingar hafa komið að verkefninu með ReykjavíkurAkademíunni.

Fljótlega kom í ljós, að auk þess hve hópurinn er dreifður, þá er starfsemi hvers fræðimanns fyrir sig of umfangslítil til að fangast upp; auk þess eru viðmið Hagstofu, Skattstjóra og stéttarfélaga óaðgengileg fyrir einyrkja en henta betur stórum rannsóknastofnunum. Sem dæmi safnar Hagstofan eingöngu gögnum frá fyrirtækjum og stofnunum með veltu upp á meira en 5 milljónir á ári og byggir söfnun gagna á ÍSAT 2008 atvinnugreinaflokkuninni sem fangar illa fjölbreytta starfsemi fræðafólks sérstaklega þegar kemur að þekkingarmiðluninni. Allt vinnur þetta gegn sýnileika stéttarinnar í hagtölum.

Hlutverk ReykjavíkurAkademíunnar og hlutverk fræðafólksins

Til þess að bregðast við þessu undirbýr ReykjavíkurAkademían samræmda söfnun vel skilgreindra upplýsinga um rannsóknir, nýsköpun, þekkingarmiðlun og opinbera fjármögnun, með það í huga að gögnin verði afhent Hagstofunni sem tekur við þeim, greinir og gerir aðgengileg í opinberum hagvísum. Tilgangurinn er að tryggja sýnileika stéttarinnar og þannig gefa stjórnvöldum nauðsynlega yfirsýn yfir rannsóknir og þekkingarmiðlun fræðafólks sem starfar utan háskólanna og undirbyggja mat á hagrænum áhrifum af starfi fræðagreinanna. Hann stækkar þannig fræðasamfélagið, dregur fram starfsemi sem nú er ósýnileg og tryggir hópnum að opinber fjármögnun rannsókna standi honum, eins og öðru fræðafólki, til boða. Sömuleiðis nýtast gögnin til þess að ReykjavíkurAkademían geti á enn öflugri hátt en áður haldið utan um þennan í dag ósýnlega hóp, fylgist með þróun hans og talar hans máli á opinberum vettvangi.

Til þess að þessi áform geti gengið eftir þá hvetur ReykjavíkurAkademíunnar allt fræðafólk sem starfar eða hefur starfað utan háskólanna að rannsóknum og þekkingarmiðlun til þess að gerast félagar, nýta þjónstu ReykjavíkurAkademíunnar og að svara, þegar þar að kemur, árlegri spurningarkönnun um verkefnin og fjármögnun þeirra.


Ofangreindur texti byggir á hluta greinar Undan huliðshjálminum. Fræðasamfélagið utan háskólanna, sem Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir og Lilja Hjartardóttir rituðu og birtist í Sögu 2023 LXI:I

Umsókn um vinnuaðstöðu

Prentari og öryggiskerfi

Erindi og birtingar