ReykjavíkurAkademían er rannsókna- og nýsköpunarstofnun í menningar-, hug- og félagsvísindum sem hefur með samningi við menntamálaráðuneytið tekið á sig það hlutverk að efla formlegan vettvang fyrir sjálfstæðar rannsóknir og nýsköpun; virkja og tengja saman þann mannafla sem stundar sjálfstæðar rannsóknir og hvetja til fjölfaglegs samstarfs innanlands sem utan. Þá er stofnuninni ætlað að veita „vísindamönnum í sjálfstæðum rannsóknum starfsaðstöðu og rannsóknarþjónustu.“
ReykjavíkurAkademían vinnur að því að efla enn frekar þjónustu við sjálfstætt starfandi rannsakendur og auðvelda þeim að fjármagna verkefni með styrkjum. Til þess að svo megi vera þarf stofnunin að standa jafnfætis öðrum rannsóknarstofnunum og huga þarf sérstaklega að því að þekking á starfsumhverfinu varðveitist á skrifstofu hennar. Stjórn ReykjavíkurAkademíunnar samþykkti nýlega nýja (13. mars 2024) nýja umgjörð um Rannsóknaþjónustuna og ræktun rannsóknahópa við stofnunina. Þar eru fest í sessi skýr og sanngjörn viðmið um hvað felst í þjónustu Akademíunnar við rannsakendur og rannsóknarhópa. Þessi viðmið eru birt í skýrslunni Aðstaða fyrir rannsakendur í ReykjavíkurAkademíunni. Þjónusta og áframhaldandi uppbygging innviða. Ritstjóri Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir (Reykjavík, apríl 2024) RA-2024-4.
Rannsakendur sem starfa við ReykjavíkurAkademíuna geta gert ráð fyrir því að stofnunin:
- tryggi viðunandi starfsaðstöðu fyrir rannsakendur að leigja
- bjóði upp á rannsóknarþjónustu
- tryggi viðurkennda fjárhagslega umsýslu verkefna
- bjóði upp á aðra þjónustu sem nýtist verkefnum
- tryggi sýnileika verkefna og fræðimanna
- styðji við miðlun niðurstaðna rannsókna á því formi sem hentar rannsókn hverju sinni
Á móti er mikilvægt að fræðimenn:
- kenni sig við ReykjavíkurAkademíuna í fyrirlestrum, ráðstefnu umsóknum, viðtölum
- noti glærur og bréfsefni með lógói Akademíunnar í fyrirlestrum og kynningum
- geti stofnunarinnar þegar niðurstöður rannsókna eru kynntar
- sendi stofnuninni nauðsynlegar upplýsingar sem óskað er eftir til birtingar