Viltu öðlast leikni í að greina ímyndir og fordóma og skerpa gagnrýna hugsun? Vinna að betra samfélagi? Opni háskólinn í háskólanum í Reykjavík í samstarfi við Reykjavíkurakademíuna býður upp á nýtt og spennandi 9 klst. námskeið í gagnrýnni hugsun, ímyndum og fordómum. Kennsla fer fram í húsnæði Háskólans í Reykjavík dagana 5., 6. og 8. október 2009 kl. 17:00 – 20:00.
Námskeiðslýsing:
Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir áhrifum ímynda og fordóma i nútímasamfélaginu til að forðast helstu gryfjur sem fólk og fyrirtæki falla í og til að geta unnið að betra samfélagi. Fjallað verður um ímyndir og fordóma á aðgengilegan hátt með því að nota þætti úr daglega lífinu og vinnumenningunni og lögð áhersla á mynd- og textagreiningar. Veitt verður innsýn í ímyndir og fordóma í fjölmiðlum, auglýsingum, kvikmyndum, trúarbrögðum, fyrirtækjum og stjórnkerfinu. Fjallað er um fjölmenningarsamfélagið og margbreytileika út frá þessum hugtökum. Aðferðum sem gera nemendum fært að greina hugmyndir, tákn og klisjur í dægurmenningu og fjölmiðlum verður miðlað með því að flokka og rekja efni þeirra. Áhersla verður lögð á að auka meðvitund um birtingarmynd fordóma, skilja uppsprettu þeirra og afleiðingar. Fjallað verður einnig um togstreytuna á milli fjölmenningar og einmenningar og fjölbreytni og einsleitni. Þá verður gerð grein fyrir samþættingarsjónarmiði hjá hinu opinbera í tengslum við minnihlutahópa. Fjallað verður um flokkunaráráttu gagnvart hinum ýmsu hópum í samfélaginu og í lokin verður fjallað um efnið út frá viðbótaróskum þeirra sem sitja námskeiðið.
Ávinningur:
* Aukin meðvitund um birtingarmyndir ímynda, fordóma og staðalímynda.
* Skilningur á uppsprettu þeirra og afleiðingum.
* Meiri færni í að greina hugmyndir, tákn og klisjur í dægurmenningu og fjölmiðlum.
* Færni í að setja efnið í samhengi út frá sögu og siðfræði.
Fyrir hverja?
Námskeiðið er opið öllum.
Leiðbeinendur:
Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur.
Friðbjörg Ingimarsdóttir MA í mennta- og menningarstjórnun.
Clarence. E. Glad trúarbragðarfræðingur.
Gunnar Hersveinn og Friðbjörg Ingimarsdóttir hafa sérhæft sig í miðlun upplýsinga um ímyndir og fordóma með rannsóknum, kennslu, ráðgjöf, greinaskrifum og þau skrifa um þessar mundir bók um ímyndir og fordóma sem hlotið hefur styrk hjá Þróunarsjóði námsgagna.
Verð 31.500 kr.