Í Svartárkoti í Bárðardal er aðsetur verkefnis sem heitir Svartárkot, menning – náttúra og hófst haustið 2005, í samstarfi ReykjavíkurAkademíunar og ábúenda þar. Hugmyndin er að reisa í Svartárkoti rannsókna- og kennslusetur með sambúð manns og náttúru að meginviðfangsefni og halda alþjóðleg verkefni á háskólastigi. Meginmarkmið verkefnisins eru tvö: Annars vegar að byggja upp nýstárlegar og öflugar rannsóknir og kennslu þar sem íslensk viðfangsefni eru rannsökuð í alþjóðlegu ljósi og hins vegar að tengja setrið við aðra uppbyggingu í Bárðardal og Þingeyjarsveit, ekki síst í ljósi þess að svæðið hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Þar má nefna skólabúðir sem starfræktar eru í gamla skólahúsinu í Kiðagili, almenna ferðaþjónustu, svokallaða “jarðferðamennsku” (geotourism) sem verið er að byggja upp, megininngang að Vatnajökulsþjóðgarði, og uppbyggingu menntaferða, sem eru nátengdar fræðilegum viðfangsefnum setursins. Óhætt er að segja að í Svartárkoti fléttist saman hið staðbundna og hið hnattræna.
Uppbygging þessa verkefnis hefur gengið vel, með þrotlausri vinnu aðstandenda þess og nokkrum fjárstuðningi stjórnvalda. Sumarið 2007 var haldið kynningarnámskeið fyrir 30 erlenda háskólakennara og tókst það með eindæmum vel og í kjölfarið bárust fjárframlög og bókagjafir frá þátttakendum.
Sumarið 2008 var haldið eitt vettvangsnámskeið fyrir landfræðinema í Edinborgarháskóla. Síðastliðið sumar, 2009, var aftur hýst námskeið fyrir Edinborgarháskóla og tvö námskeið voru haldin sem mótuð voru frá grunni, annað um handritamenningu síðari alda, hitt um umhverfissögu og tókust bæði með ágætum. Það er lykilatriði að fá til samstarfs um hvert námskeið leiðandi erlenda fræðimenn og er skemmst frá að segja að það hefur reynst auðsótt að fá þá til samstarfs. Á námskeiðinu um handritamenningu síðari alda var Margaret Ezell frá Texas A&M háskóla gestakennari, en hún er einn helsti brautryðjandi þessa nýja fræðasviðs. Á námskeiðinu um umhverfissögu kenndi Donald Worster, en hann er einn helsti frumkvöðull þessarar greinar sagnfræðinnar.
Einna mest er þó um vert að á námskeiðið í umhverfissögu kom hópur sex stúdenta á styrk frá NICHE, samtökum kanadískra umhverfissagnfræðinga.
Nú hefur þessi hópur gert afar lofsamlega skýrslu um námskeiðið á heimasíðu NICHE:
http://niche-canada.org/svartarkot
Fyrir þá sem kveljast af áhyggjum af þeim hnekki sem orðstír Íslendinga hefur beðið ættu þetta að vera góðar fréttir.
Loks má geta þess að einn þátttakenda í námskeiðinu hefur ákveðið að breyta doktorsverkefni sínu og tengja það við íslenska umhverfissögu og fá sem meðleiðbeinendur tvo af kennurum námskeiðsins.