Fimmti fyrirlestur í samstarfsverkefni ReykjavíkurAkademíunnar, ÍNOR og Háskólans á Bifröst fer fram í hátíðarsal akademíunnar föstudaginn 9. apríl frá klukkan kl. 12:00 -13:30. Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur, flytur fyrirlesturinn “Að hefjast í hærri stað og þaðan minnkast”: Um kotungshátt.
Öll velkomin.
Viðar Hreinsson
Ekki þarf að fjölyrða um það dómgreindarlausa oflæti sem valdið hefur ýmsum brestum í íslensku samfélagi undanfarin misseri. Í erindinu verður spurt hvort oflætið og dómgreindarleysið geti ekki átt djúpar menningarlegar rætur, hvort hrunið sé kannski fyrst og fremst menningarlegt.
Drepið verður á ýmis atriði úr íslenskri menningarsögu sem vekja þá spurningu hvort fyrsta skrefið í menningarlegri endurreisn hljóti ekki að felast í því að kannast við kotunginn í sjálfum sér.
Viðar Hreinsson er sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur, mag. art. frá Hafnarháskóla. Hann hefur ritað fræðigreinar og ævisögur og ritstýrt þýðingum Íslendingasagna. Hann hefur verið í ReykjavíkurAkademíunni frá stofnun hennar og var framkvæmdastjóri hennar frá 1. september 2005 til 31. mars sl.
Hildigunnur Ólafsdóttir stýrir fundi og umræðum.
Á vef Háskólans á Bifröst (www.bifrost.is) verður hægt að nálgast upptökur fyrirlestranna á meðan röðin stendur yfir.
http://secure.emission.is/
Sjá nánar á www.inor.is
Verkefnið er stutt af Reykjavíkurborg