1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Sjálfsmynd þjóðar við upphaf fjöldaferðamennsku á Íslandi: Menningarminnið, pólitískar goðsagnir og landnámsmaðurinn 7.maí

Sjálfsmynd þjóðar við upphaf fjöldaferðamennsku á Íslandi: Menningarminnið, pólitískar goðsagnir og landnámsmaðurinn 7.maí

by | 6. May, 2010 | Fréttir

ÍNOR og ReykjavíkurAkademían kynna

 

nor.jpgFyrirlestraröð um ímyndir og sjálfsmyndir.
Í samstarfi við Háskólann á Bifröst

Áttundi fyrirlesturinn verður haldinn í ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121, frá kl. 12:00 -13:30 föstudaginn 7. apríl í fyrirlestrarsal á 4. hæð.
Á vef Háskólans á Bifröst (www.bifrost.is) verður hægt að nálgast upptökur fyrirlestranna á meðan röðin stendur yfir.
Sjá nánar á www.inor.is

Verkefnið er stutt af Reykjavíkurborg

 

„Sjálfsmynd” Eftir Borghildi Óskarsdóttur

Sjálfsmynd þjóðar við upphaf fjöldaferðamennsku á Íslandi:

Menningarminnið, pólitískar goðsagnir og landnámsmaðurinn

Marion Lerner

Í upphafi 20. aldar voru uppi tvær táknmyndir íslensku þjóðarinnar: landnámsmaðurinn og fjallkonan. Þegar Ferðafélag Íslands og félagsskapur að nafni Fjallamenn voru stofnuð á 3. og 4. áratugnum lýstu frammámenn þeirra starfi sínu ítrekað sem landnámi og vísuðu í landnámsmanninn sem fyrirmynd. Hvers konar eiginleika sáu þeir í honum og hvaða túlkun lögðu þeir í hina þekktu mýtu af landnáminu? Og af hverju varð hann einn fyrir valinu en fjallkonan ekki höfð með? Þegar unga kynslóðin stofnaði með sér Farfuglafélög fór hún sínar eigin leiðir, en miðaði hún á sama hátt við landnámið og hinir eldri höfðu gert?
Í fyrirlestrinum verður reynt að svara þessum spurningum á grundvelli rannsókna á fyrrnefndum þremur félögum og með hliðsjón af kenningum um menningarminnið og pólitískar goðsagnir. Sérstaklega verður lögð áhersla á tvær hliðar menningarminnis sem ætíð virka saman: geymsluminnið og hlutverksminnið.

Marion Lerner er menningarfræðingur frá Humboldt-háskóla í Berlín og þýðingafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er búsett á Íslandi og hefur stundað rannsóknir á sögu ferðamennsku og ferðabókmennta á Íslandi. Hún er með doktorspróf í norrænum fræðum en ritgerð hennar fjallaði um stofnun ferðafélaga á Íslandi snemma á 20. öld. Marion kennir þýðingafræði við Háskóla Íslands og er umsjónarkennari í leiðsögunámi við Endurmenntun HÍ. Auk þess starfar hún sem þýðandi og leiðsögumaður á Íslandi. Eftir hana liggja m.a. þýðingar á hrakningasögum Pálma Hannessonar, rektors.

Verið velkomin