8. desember kl. 12:05 Í ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121, 4. hæð
Sigurður Pétursson sagnfræðingur:
Saga verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum
1890-1930
Fyrirlesturinn mun fjalla um þá umbyltingu viðhorfa og aðstæðna sem fylgdu í kjölfar nýrra þjóðfélagsaðstæðna um aldamótin 1900; myndun verkalýðsfélaga og pólitíska forystu jafnaðarmanna á Ísafirði, sem leiddi til fyrsta rauða meirihlutans í bæjarstjórn á Íslandi árið 1921; uppbygging verkalýðshreyfingar, pólitísk átök og sterka stöðu jafnaðarmanna á Vestfjörðum.
Fyrr á þessu ári kom út fyrsta bindi sögu verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Bókin nefnist Vindur í seglum og nær til tímabilsins 1890-1930. Hún segir frá þeim breytingum sem áttu sér stað í atvinnuháttum, búsetu og félagsmálum á Vestfjörðum í kjölfar nýrra verslunarhátta, þéttbýlismyndunar og skútuútgerðar. Ný viðhorf og nýjar aðstæður sköpuðu grunn fyrir samtök um kaupgreiðslur í peningum og styttingu vinnutímans. Verkalýðsfélög voru stofnuð til að bæta kjör vinnandi fólks, en mættu sterkri andstöðu atvinnurekenda.
Bókin Vindur í seglum fjallar um fyrstu verkalýðsfélög á Vestfjörðum, baráttumál og starfshætti þeirra, viðbrögð atvinnurekenda og pólitísk viðhorf. Glímu verkalýðsfélaga og atvinnurekendavalds á Ísafirði, í Hnífsdal, Bolungarvík og Súðavík, Þingeyri og Flateyri, á Bíldudal og Patreksfirði. Þá segir frá stofnun Alþýðusambands Vestfjarða og fyrstu starfsárum þess.
Sigurður Pétursson sagnfræðingur er Ísfirðingur. Hann lauk cand. mag. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1990. Eftir hann liggja rit og greinar um sögu verkalýðshreyfingar, stjórnmála og atvinnumála. Sigurður hefur undanfarin ár unnið að ritun sögu verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum á vegum Alþýðusambands Vestfjarða. Bókin Vindur í seglum er fyrsta bindi þeirrar sögu og kemur út í samstarfi ASV og bókaútgáfunnar Skruddu.
Upplýsingar:
ReykjavíkurAkademían, www.akademia.is, s. 562 8561
Bókasafn Dagsbrúnar, www.bokasafndagsbrunar.is, s. 562 8560