Þær gleðifréttir bárust í gær að dr. Gunnþóra Ólafsdóttir landfræðingur og verkefnastjóri Rannsókna(s)miðju ReykjavíkurAkademíunnar hefur hlotið brautargengi til rannsóknarstöðu við Háskólann í Lúxemborg.
Rannsóknin byggðist á þeirri víðteknu hugmynd að samneyti við náttúruna hefur góð (jafnvel lækninga) áhrif á líðan einstaklinga og líf þeirra og þar eigi náttúran sjálf mikinn þátt í. Í þetta sinn verður kastljósinu beint að frístundaathöfnum í borgarumhverfinu með það að markmiði að kanna áhrif umhverfis, sér í lagi borgarnáttúrunnar á líðan einstaklinga. Áhrif hreyfingar (iðju) og hugsana á líðan verður einnig rannsökuð.
Framhaldsverkefnið gefur færi á að prófa niðurstöður sem fengust í doktorsrannsókninni og kanna þær sem innlegg í hinu lífeðlisfræðilega ferli sem á sér stað þegar vanlíðan breytist í vellíðan. Verkefnið er þverfaglegt og heildrænt. Það byggir annars vegar á vísindalegri hugsun, kenningum og rannsóknaaðferðum í sálfræði, umhverfissálfræði, taugalíffræði, lífeðlisfræði og lýðheilsufræði og hins vegar á fyrirbærafræðilegri nálgun sem þróuð var fyrir doktorsverkefnið. Hluti af verkefninu er að rannsaka tengslin á milli mismunandi vísindagreina.
ReykjavíkurAkademían óskar Gunnþóru alls hins besta og þakkar henni vel unnin störf sem verkefnastjóri nýju Rannsókna(s)miðju RA á síðustu mánuðum.