Föstudaginn 11. maí síðastliðinn varði Ingunn Ásdísardóttir, þjóðfræðingur, akademón og stjórnarformaður RA ses, doktorsritgerð sína í Norrænni trú við Háskóla Íslands. Markmið doktorsrannsóknarinnar var að skoða þær verur sem nefnast jötnar í heimildum um fornnorrænar goðsagnir, óháð eldri fræðilegum rannsóknum eins og kostur er, þar sem svo til allar eldri rannsóknir taka mjög sterkt mið af því sjónarhorni sem ríkjandi er í heimildunum, en það byggist á því viðhorfi að guðir og menn séu „við“ en jötnar eru skilgreindir sem „hinir“, sem andstæðingar, jafnvel óvinir. Þetta er einkum áberandi í goðsögulegum verkum Snorra Sturlusonar, Gylfaginningu og Skáldskaparmálum.
Í tilraun til að losa jötna undan þessu sjónarhorni og komast nær ímynd þeirra og því hlutverki sem þeir gegna í fornnorrænum goðsögnum eru birtingarmyndir þeirra í eddukvæðum og dróttkvæðum skoðaðar á hlutlausum forsendum og allar vísanir til þeirra í þessum goðsagnaheimildum greindar á nýjan leik án áhrifa frá fyrri rannsóknum.
Helstu niðurstöður þessarar greiningar eru þær að mörg kvæðanna virðast geyma sérkennilega jákvæða, jafnvel virðulega, ímynd jötna þar sem þeir birtast allt að því sem jafningjar goðanna (í sumum tilfellum goðunum fremri og jafnvel æðri), jafnir þeim að stærð og líkamsburðum. Þeir standa framarlega í menningarlegu tilliti og hafa aðgang að auðlindum sem goðin ágirnast. Þeir búa einnig yfir sköpunarmætti og ráða yfir kunnáttu í fjölkynngi og fornum fræðum en hvoru tveggja virðist hafa verið ákaflega eftirsótt og mikilsmetin þekking.
ReykjavíkurAkademían óskar dr. Ingunni Ásdísardóttur innilega til hamingju með áfangann.