Salvör Nordal er gestur Gammablossa þann 8. apríl og flytur fyrirlesturinn „Samfélagsleg ábyrgð viðskiptalífsins. – Hugleiðing um bankahrun og Milton Friedman.” Fyrirlesturinn hefst klukkan 12.05 og stendur yfir í tæpan klukkutíma.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um kenningu Friedmans þess efnis að eina skylda viðskiptalífsins við samfélagið sé að hámarka hagnað. Þessi hugmynd Friedmans hefur verið mjög áhrifamikil í viðskiptalífinu, sérstaklega hin síðari ár – eins og berlega hefur komið í ljós að undanförnu. Í fyrirlestrinum verða reifuð helstu andmæli við þessa kenningu Friedmans auk þess sem því verður haldið fram að hún gangi gegn sjónarmiðum hans og annarra ný-frjálshyggjumanna um að lágmarka eigi þann lagaramma sem viðskiptalífinu sé búinn og hlutur ríkisvaldsins eigi að vera sem minnstur.
Salvör Nordal er forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og hefur einnig kennt siðfræði við Hugvísindasvið síðustu ár. Hún er fyrrverandi formaður ReykjavíkurAkademíunnar.
Gammablossar
[Gammablossar myndast í hamfarakenndum ævilokum massa – mikilla sólstjarna. Þeir geta orðið gríðarlega bjartir og sjást langt að].
Fyrirlestraröð í ReykjavíkurAkademíu sem er haldin einu sinni í mánuði
Miðvikudagur í ReykjavíkurAkademíu
JL-húsinu – Hringbraut 121 – 4. hæð (stóri salurinn)
Kl. 12:05-13:00