1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Mannorð þjóðar: Búsáhaldabylting í kjölfar efnahagshruns

Mannorð þjóðar: Búsáhaldabylting í kjölfar efnahagshruns

by | 22. Apr, 2009 | Fréttir

SÝNING – UMRÆÐUR – UPPÁKOMUR

ReykjavíkurAkademían efnir til sýningarinnar Mannorð þjóðar, búsáhaldabylting í kjölfar efnahagshruns, í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Sýningin er opin alla virka daga frá klukkan 14-17 og stendur hún til mánaðamóta í Hugmyndahúsi Háskólanna, Grandavegi 2 sem áður hýsti Saltfélagið. Á kosningadag bjóðum við upp á kaffi frá klukkan 10. Sérstakir sýningarviðburðir verða auglýstir á mánudaginn.

Frá því bankakerfið hrundi fyrir rúmu hálfu ári síðan hófust stigvaxandi mótmæli gegn stjórnvöldum. Fundir Harðar Torfasonar, borgarafundir og þjóðfundur. Meiri óeirðir urðu en sést höfðu áratugum saman. Á gamlársdag var síldin sterkkrydduð og búsáhaldabyltingunni hrakti ríkisstjórn hrunsins frá völdum.

Ný stjórn boðaði kosningar. Hneykslismál og grunsemdir um mútur og spillingu hafa kryddað þras og klisjur kosningabaráttunnar. Á alþingi voru lýðræðisumbætur kæfðar með málþófi.

Kannski er atburðarásin rétt að byrja. Sumir líta á heimskreppuna sem hrun kapítalismans, aðrir segja að framundan sé uppgjör og umskipti sem tengjast lýðræði, vistkreppu og lífinu á jörðinni. Stóru spurningarnar gleymast þó í kosningaþrasinu.

Samfélagshræringar á Íslandi hafa aldrei verið skráðar jafnvandlega og umrót undanfarinan mánaða, á ljósmyndum, kvikmyndaupptökum og umræðu á vefmiðlum og öðrum fjölmiðlum. Því er tímabært að spyrja í aðdraganda kosninga hvort búsáhaldabyltingin sé gleymd eða rétt að byrja?

Í húsinu verður dagskrá daglega fram yfir kosningar með umræðum og uppákomum. Framboðum verður boðið að koma og taka þátt í ósminkuðum umræðum í annarri umgerð en sjónvarpið býður. Eftir kosningar verður stjórnmálamönnum boðið að mynda nýja ríkisstjórn á sýningunni.

Sýningunni lýkur með dagskrá á baráttudegi verkalýðsins 1.maí.

Sýningin vill kveikja ögrandi spurningar:

Er búsaáhaldabyltingin góð eða vond, lifandi eða dauð?

Er ástæða til að halda lífi í henni?

Hvar eru kröfur hennar?

Verður þeim fullnægt með kosningum á fjögurra ára fresti?

Virkar lýðræðið – eða þarf að endurskoða tilhögun þess?

Af hverju ekki stjórnlagaþing?

Er persónukjör hættulegt?

Eiga flokkarnir að ráða?

Er almenningur hættulegur lýðræðinu og virðingu alþingis?

Er lýðræðið form eða inntak, eða er það kannski höggvið í stein?

Hvernig tengist heiður Alþingis inntaki lýðræðis?

Mun lýðræðið sigra í kosningunum?
Hvað kosta atkvæðin – getur einhver búið til verðskrá?

Fær almenningur nægar upplýsingar? – Hver eru t.d. skilyrði AGS?

Hvernig framtíð viljum við?- Getum við treyst stjórnmálaflokkum fyrir henni?

Nánari upplýsingar:

Viðar Hreinsson (s. 844 9645) Sigríður Bachmann sýningarstjóri (s. 899 3858)