Sólveig Ólafsdóttir, sagnfræðingur, hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra af Viðari Hreinssyni, bókmenntafræðingi, sem gengt hafði stöðunni síðan 2005. Viðar var jafnframt kosinn nýr formaður stjórnar ReykjavíkurAkademíunnar á aðalfundi sem haldinn var 16. apríl síðastliðinn.
Sólveig er sagnfræðingur að mennt en lauk nýlega meistaraprófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Lokaritgerð hennar fjallaði um Hólavallagarð, gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu, en helsta rannsóknarsvið Sólveigar hefur síðustu ár verið matarhefðir og matarmenning á Íslandi. Sólveig var framkvæmdastjóri sýningarinnar Reykvíska eldhúsið, matur og mannlíf á liðinni öld sem félagið Matur-saga-menning stóð að í samstarfi við Reykjavíkurborg og ReykjavíkurAkademíuna árið 2008. Hún er ennfremur einn að aðstandendum Prisma, diplómanáms í skapandi og gagnrýninni hugsun, sem Listaháskólinn og Háskólinn á Bifröst standa að í samstarfi við ReyjkavíkurAkademíuna.
Starf ReykjavíkurAkademíunnar hefur verið með miklum blóma undanfarin ár. Innan hennar hefur sívaxandi fjöldi sjálfstætt starfandi fræðimanna leitt saman hesta sína í kraftmiklu og fræðilegu nýsköpunarstarfi. Á ársfundi, sem haldinn var föstudaginn 16. apríl s.l., urðu nokkur tímamót í starfi Akademíunnar
Á fundinum var kosin ný stjórn og lét dr. Clarence E. Glad af embætti stjórnarformanns en Viðar Hreinsson var kjörinn nýr formaður. Úr stjórn gengu Ólöf Gerður Sigfúsdóttir mannfræðingur, Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur og dr. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur. Í nýrri stjórn eru dr. Davíð Ólafsson sagnfræðingur, Kristinn Schram þjóðfræðingur, og Þorgerður Þorvaldsdóttir kynjafræðingur sem sitja áfram úr fyrri stjórn, og dr. Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur, dr. Gunnþóra Ólafsdóttir landfræðingur og dr. Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur en hann var fyrsti formaður RA.
Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur, sem verið hefur framkvæmdastjóri frá 1. september 2005, lét af störfum en við starfi framkvæmdsstjóra tók Sólveig Ólafsdóttir.
ReykjavíkurAkademían var stofnuð 7. maí 1997 og er því komin á táningsaldur. Á undanförnum árum hefur starfseminni vaxið fiskur um hrygg og var RA breytt í sjálfseignarstofnun árið 2006. Saga ReykjavíkurAkademíunnar er rakin í bókinni Fræðimenn í flæðarmáli eftir dr. Árna Daníel Júlíusson sagnfræðing sem út kom á síðasta ári og er til sölu á skrifstofu ReykjavíkurAkademíunnar að Hringbraut 121. Nánari upplýsingar um starfsemi og félaga ReykjavíkurAkademíunnar er að finna á heimasíðunni www.akademia.is.