1. Forsíða
  2.  » 
  3. Viðburðir RA
  4.  » 
  5. Borgarmálþing
  6.  » Horft á Reykjavík 5. júní

Horft á Reykjavík 5. júní

by | 1. Jun, 2010 | Borgarmálþing, Fréttir, Viðburðir RA

horarey.jpg

Horft á Reykjavík

 

5. júní kl. 13:00 2010

Málþing á vegum ReykjavíkurAkademíunnar og ÍNOR í samstarfi við Reykjavíkurborg í Þjóðmenningarhúsinu, Hverfisgötu 15.

Í umræðunni um glannalega og yfirlætislega sjálfsmynd Íslendinga og ímynd Íslands hefur Reykjavík, sem höfuðborg landsins, orðið útundan að miklu leyti. Á málþinginu verður sjónum beint að Reykjavík og ímynd hennar og sjálfsmynd skoðuð frá sjónarhóli bæði lista og fræðigreina.

Dagskrá

13:00-13:15 Borgarstjóri setur málþing

13:15-14:00 Íris Ellenberger: „Borg fyrir heilbrigða, sjálfstæða og hamingjusama kynslóð“

14:00-14:15 Anna Rakel Róbertsdóttir Glad, Hilda Björg Stefánsdóttir og Katla Rós Völudóttir: „Hommar meiga líka singja fyrir Jesús“

14:15- 14:45 Sumarliði Ísleifsson: „Af samspili innri og ytri ímynda, drambi, hæðni og vanmetakennd“

14:45-15:00 Kaffi

15:00-15:30 Sæborg: „Atlantis“

15:30 -16:00 Hildigunnur Sverrisdóttir: „Að nema stað“

16:00 Leiðsögn Sigurðar Gunnarssonar um kvikmyndasögusýningu Þjóðmenningarhússins og léttar veitingar


Útdrættir erinda

Íris Ellenberger: „Borg fyrir heilbrigða, sjálfstæða og hamingjusama kynslóð. Ímynd Reykjavíkur í Íslands- og Reykjavíkurkvikmyndum fram til 1966

Strax í upphafi kvikmyndaaldar beindust augu kvikmyndagerðarmanna að Íslandi. Flestir þeirra lögðu áherslu á sögu og náttúru landsins og höfðu lítinn áhuga á Reykjavík. En undir lok 4. áratugarins urðu breytingar á heimildarmyndum um Ísland, svokölluðum Íslandsmyndum, sem ollu því að staða Reykjavíkur breyttist. Innlendir aðilar
, sérstklega íslenska ríkið, blönduðu sér í leikinn . Aukin áhersla var lögð á tækniframfarir og nútímavæðingu til að selja íslenskar vörur og ferðir til landsins. Reykjavík fékk þá sérstakt hlutverk sem helsta aðsetur nútímavæðingarinnar. Vegur borgarinnar jókst og um hana voru gerðar sérstakar Reykjavíkurmyndir.

Í erindinu er fjallað um Reykjavík eins og hún birtist í fjórum Reykjavíkurmyndum framleiddum á árunum 1944-1958. Einnig er litið á hlutverk borgarinnar í Íslandsmyndum á 4.-7. áratugnum. Þá er skoðað hvernig borgin verður að táknmynd íslenskrar nútímavæðingar og birtingarmynd valds Íslendinga yfir hverfulum náttúruöflunum. Litið er til þeirra hagsmuna sem lágu að baki því að skapa Reykjavík ímynd sem andstæðu sveitanna og þeirrar þýðingu sem hin nútímavædda borg hafði fyrir samanburð Íslands við meginlandið.

Íris Ellenberger stundar nú doktorsnám við Háskóla Íslands. Rannsóknarefni hennar er danskir innflytjendur á Íslandi 1900-1970 með áherslu á félagslega stöðu, félagslegan hreyfanleika, aðlögun og þverþjóðleika.

Anna Rakel Róbertsdóttir Glad, Hilda Björg Stefánsdóttir og Katla Rós Völudóttir: „Hommar meiga líka singja fyrir Jesús“

„Hommar meiga líka singja fyrir Jesús“ er dæmi um skilaboð sem birtust í verkefni þriggja nemenda úr Listaháskóla Íslands. Anna Rakel, Hilda Björg og Katla Rós fjalla um skólaverkefnið “Einsdagsverk” sem unnið var á fyrsta ári en þróaðist út í einskonar samfélagskönnun sem endurspeglaði tíðarandann hverju sinni. Verkefnið tókst svo vel til að við ákváðum að endurtaka það á öðru og þriðja ári. Það skemmtilega er hversu mikil breyting átti sér stað á þessum skrítnu tímum í samfélaginu frá árinu 2007 til 2009.

Upphaflega var okkur lagt fyrir að gleðja aðra og taka okkur út fyrir veggi skólans. Á þessum tíma stóð til að Listaháskólinn færi á Laugarveginn og því fannst okkur sú staðsetning tilvalin fyrir verkefnið. Við ákváðum að virkja starfsmenn og gangandi vegfarendur listrænt og sýna þeim svo afraksturinn í lok dags. Við þrömmuðum niður Laugarvegin snemma morguns og fengum fólk til að teikna eina mynd og skrifa eina settningu á sitt hvort blaðið. Um kvöldið héldum við sýningu á veggspjöldunum og gáfum listamönnunum, gestum og gangandi póstkort. Sýnd verða veggspjöldin sem gerð voru og stutt heimildamynd af ferlinu.

Anna Rakel, Hilda Björg og Katla Rós útskrifast úr grafískri hönnun LHÍ núna í vor. Verkefnið hafa þær unnið öll árin í LHÍ og koma til með að halda áfram með það eftir útskrift.

Sumarliði Ísleifsson: „Af samspili innri og ytri ímynda, drambi, hæðni og vanmetakennd“

Í fyrirlestri sínum mun Sumarliði fjalla um samspil innri og ytri ímynda Íslands. Hann mun jafnframt gera grein fyrir nokkrum birtingarmyndum þessara ímynda, hvernig viðtökusaga, yfirburðahyggja, dramb, hæðni, vanmetakennd og þjóðbygging, svo nokkur hugtök séu nefnd, tengjast ímyndamótun og ímyndasögu landsins.

Sumarliði R. Ísleifsson er sagnfræðingur og ritstjóri. Hann hefur verið sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni frá stofnun. Sumarliði hefur aðallega sinnt rannsóknum á stjórnmála- og verkalýðssögu 20. aldar auk rannsókna á ímyndum Íslands að fornu og nýju. Hann hefur skrifað og gefið út fjölda greina og bóka sem hafa birst hérlendis og erlendis.

Sæborg: „Atlantis“

Verkið Atlantis byggir á ímyndaðri jarðsögu Seltjarnarness og notar töluleg gildi úr legu landsins til hljóðmótunar. Með breyttri sjávarhæð verða til nýjar eyjar og aðrar renna saman. Tónlistin lýsir þessu ferli og notast við tölulegar upplýsingar um hið breytilega landslag.

Sæborg er hátæknihljómsveit sem notast við umbreytt hljóðfæri, skynjara og tölvuvinnslu. Verkin eru blanda af tónsmíðum og spuna, oft með samtvinnuðum myndrænum þáttum. Meðlimir Sæborgar eru Áki Ásgeirsson, Magnús Jensson og Þorkell Atlason.

Hildigunnur Sverrisdóttir: „Að nema stað“

Hugleiðing um borgina sem stað og sem birtingarmynd samfélags.

Reykjavík er höfuðþorp lítils samfélags, minni máttar í megalómanískum ramma hlutfallslega stórs lands, borgarsamfélag sem í gegnum öfgafullan skala þarf að spegla sig í flóknu ljósbroti fjarlægðar, ákafra fjölskyldutengsla, mannfæðar og stórbrotinnar náttúru. Hvernig hafa manngerðir rammar samfélagsins endurspeglað þessa þróun síðan við lýðveldisstofnun og hvert skal haldið héðan, nú á þessum tímum endurskoðunar og mótunar nýrrar framtíðarsýnar fyrir tæknilega gjaldþrota þjóðfélag?

Arkitektúr hefur eingöngu verið kenndur í tæpan áratug á Íslandi frá því námsbraut í arkitektúr var stofnuð árið 2001 við Listaháskóla Íslands og nú eru fyrstu íslensku arkitektanemarnir að vaxa úr grasi sem fá að nema í sínu eigin umhverfi, fá að spegla sig í eigin samhengi í mótunarferlinu og taka af því lærða afstöðu. Hvaða áhrif mun það hafa?

Hildigunnur Sverrisdóttir er arkitekt og stundakennari við LHÍ, Prisma og HR. Erindið er að stórum hluta byggt á samvinnu hennar við fagstjóra og lektor arkitektúrdeildar LHÍ, Sigrúnu Birgisdóttur, og skyggnst verður inn í rannsóknir þeirra og nemenda í arkitektúr í LHÍ.

Nánari upplýsingar fást á www.akademia.is eða hjá Þorbjörgu í síma 847-0855 og á [email protected]