Mývatnssveit: Sjálfbærni, umhverfi og þróun 1700-1950

Mývatnssveit: Sjálfbærni, umhverfi og þróun u.þ.b. 1700-1950.

Árið 2016 fékk rannsóknarhópur innan ReykjavíkurAkademíunnar þriggja ára verkefnastyrk frá RANNÍS til að sinna ofangreindu verkefni. Þá hafði hópurinn unnið í tvö ár fyrir styrk sem NSF, Rannsóknarsjóður Bandaríkjanna, hafði veitt til þess og safnað gögnum. Meginmarkmið verkefnisins, sem hefur ensku skammstöfunina MYSEAC, er að rannsaka nýtingu gróðurs til heyskapar og beitar.

Um verkefnið

Sjálfbærni íslenska bændasamfélagsins hefur lengi verið til umræðu í íslensku fræðasamfélagi og meðal almennings. Litlar rannsóknir hafa hins vegar verið gerðar á efninu. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á þetta vandamál, með því að rannsaka fyrirliggjandi heimildir um heyskap og gróðurnýtingu í Mývatnssveit í Suður-Þingeyjarsýslu 1700-1950. Á þessu tímabili urðu miklar breytingar í landnýtingu, frá frá sjálfsþurftarbúskap sem er lýst í umfangsmiklum heimildum frá því um 1700, til þess er útflutningur sauðfjárafurða fór að vaxa um 1820 og til nútímavæðingar búskapar á tímabilinu 1880-1920 og síðar. Slík rannsókn gefur færi á að fylgjast með áhrifum loftslagsbreytinga á búskap um 250 ára skeið. Grunnspurning verkefnisins er: Hverjir voru hinir ýmsu þættir sem urðu til að auka eða draga úr árangri við ræktun töðu á túnum og nýtingu graslendis til búskapar, og hvaða þættir höfðu áhrif á sjálfbærni nýtingar á þessum auðlindum af hálfu samfélags sem byggði alla sína afkomu á þeim, og við stöðuga hættu á því að hafís, kuldi eða eldgos spilltu uppskerunni?

Rannsóknarhópurinn

Rannsóknarhópurinn er þverfaglegur og alþjóðlegur. Í honum eru Astrid Ogilvie, umhverfissagnfræðingur við INSTAAR í Boulder Colorado og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri, sem hefur einkum sinnt rannsóknum á íslenskum heimildum um veðurfar allt aftur til upphafs ritaldar, Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur við RA og Þjóðminjasafn Íslands sem hefur rannsakað ýmsa þætti íslenska bændasamfélagsins, ritstýrt Landbúnaðarsögu Íslands og ritað tvö af fjórum bindum hennar, Megan Hicks fornleifafræðingur við CUNY, New York, sem hefur stundað fornleifarannsóknir í Mývatnssveit í meir en áratug, Ragnhildur Sigurðardóttir vistfræðingur við RA sem hefur stundað vistfræðirannsóknir og tekið þátt í umræðu um umhverfismál undarfarna áratugi og Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur við RA og Náttúruminjasafn Íslands, sem m.a. hefur ritstýrt útgáfu Íslendingasagna á ensku og ritað ævisögu Jóns lærða.

Afurðir rannsóknarinnar

Hafa nú þegar komið út ýmsar greinar, skýrslur og bókakaflar tengt efninu og hafa meðlimir rannsóknarhópsins haldið ófáa fyrirlestra um efnið.