HIT-verkefnið

ReykjavíkurAkademían tók á árunum 2017-2019 þátt í Erasmus+ verkefninu HIT – heroes of inclusion and transformation eða hetjur inngildingar og umbreytingar. Orðið umbreyting (transformation) lýsir vel eðli verkefnsins og þeim kynngikrafti sem býr í aðferðinni sem unnið var með, The Hero´s Journey  eða Hetjuferðinni. Verkefnið snerist um að aðlaga Hetjuferðina að starfi með jaðarsettum hópum í valdeflandi og inngildandi tilgangi en auk þess að skoða tilfinningaleg áhrif ferðarinnar á hetjurnar sem takast á við hana.

Verkefninu stýrði Divadlo bez domova (Heimilislausa leikhúsið) í Slóvakíu en aðrir þátttakendur auk ReykjavíkurAkademíunnar voru Adventure Life (Austurríki), Asociación cultural, social, de salud y bienestar ACUNAGUA (Spánn), Grupa “IZADJI” (Serbía)  og Spolek divadelních ochotníků Alois Jirásek (Tékkland). HIT-verkefnið var valið til kynningar á EPALE, rafrænni gátt Evrópuverkefna, sem eitt úrvalsverkefna ársins 2019.

Hetjuferðin (The Hero´s Journey)

Segja má að hugmyndin um hetjuferðina hafi orðið til um leið og mannkyn fór að segja sögur. Hetjuferðin á engan höfund en er nátengd nafni bandaríska goðsagnafræðingsins Joseph Campbell (1904 – 1982) en í bók hans A Hero With A Thousand Faces (1949) birtist sú kenning að flestar sögur heims fjalli á einhvern hátt um hetju sem heyrir kall til breytinga, leggur upp í ferð þar sem hún þarf að horfast í augu við margvíslegar ögranir og hindranir og snýr aftur til síns heima sem umbreytt manneskja.

Fjöldi fræða- og listamanna hafa unnið með hugmyndina um hetjuferðina en í HIT-verkefninu var stuðst við hetjuferðarþjálfun leikhússmannsins Paul Rebillot (1931 – 2010). Hetjuferðarþjálfunin er sjö daga vinnustofa þar sem notaðar eru margvíslegar skapandi aðferðir til að fara í gegnum þetta umbreytandi ferli. Leiðsögumenn voru austurrísku hjónin Helga og Manfred og Weule sem á sínum tíma lærðu aðferðina af Rebillot sjálfum. Þátttakendur í verkefninu fóru í gegnum tvær hetjuferðir; vikuferð með Weule hjónunum á kanarísku eyjunni Lanzarote og aðra í austurrísku Ölpunum þar sem þátttakendur kynntu hver fyrir öðrum þær aðferðir sem þeir höfðu sjálfir þróað í heimalandinu. Eitt markmiða verkefnisins var að sýna fram á að hin ýmsu stig hetjuferðarinnar kallist á við kenningar Wielant Macleidt um hringrás grundvallartilfinninganna fimm, tóms (hungurs, þrár), kvíða, reiði, sorgar og gleði. Um þetta er fjallað í niðurstöðum verkefnisins sem birtast í bókinni Among Heroes and Demons sem í íslenskri þýðingu ber heitið Af hetjum og hindrunarmeisturum. 

Þátttakendur

Þátttakendur á vegum ReykjavíkurAkademíunnar voru Björg Árnadóttir ritlistarkennari, Margrét Sigríður Eymundardóttir myndlistarkennari, Rúnar Guðbrandsson leiklistarkennari og Valgerður H. Bjarnadóttir sagnakona (sem öll eru líka ýmislegt fleira). Hópurinn fékk það hlutverk að skoða annað skref hetjuferðarinnar  þegar hetjan horfist í augu við það sem hindrar hana í að stíga inn í  óþekktan heim ævintýrisins og kvíðann sem því fylgir. Íslenski hópurinn skrifaði annan bókarinnar sem heitir Hindrunarmeistarinn og kvíðinn: Að þegja eða segja? Þar snerti hópurinn á efni sem var í brennidepli allrar þjóðfélagsumræðu þegar verkefnið var unnið, kynferðislegu ofbeldi, og speglar það viðfangsefni í goðsögninni um Áslaugu Kráku úr Ragnars sögu Loðbrókar.

Íslensku þátttakendurnir hafa haldið áfram að vinna saman og hvert í sínu lagi að því að aðlaga hetjuferðina að eigin kennslu og listrænni vinnu.

Frekari upplýsingar um HIT-verkefnið,  hetjuferðina og hetjuferðarnámskeið veitir Björg Árnadóttir í netfanginu  bjorg [hja] stilvopnid.is  eða síma 899 6917.