Haustið 2017 þvarr langlyndi kvenna gagnvart kynbundinni og kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti. Þá kom glögglega í ljós að þótt kynbundin og kynferðisleg áreitni sé meðhöndluð í lögum og reglugerðum hafa þær aðgerðir sem hingað til hefur verið beitt gegn slíku háttalagi ekki forðað konum frá því. Konur nýttu samfélagsmiðla til að deila frásögnum sínum undir myllumerkinu #MeToo og úr varð alþjóðleg fjöldahreyfing sem var kröftugt svar við kerfisbundinni mismunun sem kynbundið ofbeldi á þátt í að viðhalda.
Í greinasafninu nálgast höfundar efnið frá fjölbreytilegu sjónarhorni. #MeToo er sett í sögulegt samhengi innan kvennahreyfingarinnar. Fjallað er um hvernig ótti kvenna við kynferðisofbeldi birtist í íslenskum bókmenntum. Frásagnir kvenna sem störfuðu sem ráðskonur á síðari hluta 20. aldar af kynbundnu ofbeldi eru teknar til skoðunar. Sjónum er beint að því viðhorfi sem konur mæta í heilbrigðiskerfinu og fjallað um áhrif kynferðisofbeldis á heilsu þeirra. Jafnframt er vikið að hugmyndum ungra karlmanna um kynheilbrigði og #MeToo. Rýnt er í sálrænar afleiðingar margþættrar mismununar í garð fatlaðra kvenna og það kerfislæga misrétti sem #MeToo-sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi afhjúpa. Spurt er hvort #MeToo-hreyfingin sé þáttur í breyttum mannskilningi sem bjóði hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar byrginn og rýnt er í mótstöðuna gegn #MeToo.
Ritstjórar eru Elín Björk Jóhannsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Auk formála eru 11 greinar í heftinu og eru höfundar þeirra Irma Erlingsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir, Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, Guðbjörg Lilja Hjartardóttir, Dalrún J. Eygerðardóttir, Guðrún Steinþórsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir, Sigríður Halldórsdóttir, Lóa Guðrún Gísladóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen, Sóley S. Bender, Freyja Haraldsdóttir, Nanna Hlín Halldórsdóttir, Eyja Margrét Halldórsdóttir og Nichole Leigh Mosty. Bókin hlaut styrk úr Jafnréttissjóði