Stjórn ReykjavíkurAkademíunnar sem skipar fulltrúa í stjórn Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna gerði neðangreinda athugasemd við fjármögnun sjóðsins í fjárlagafrumvarpi ársins 2023.
UMSÖGNIN Í HEILD SINNI
17-297 Ýmis fræðastörf /Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna
Stjórn RA vill koma á framfæri ábendingu um alvarlega stöðu Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna. Sjóðurinn er afar mikilvægur fyrir sjálfstætt starfandi fræðafólk sem er stór hópur en ósýnilegur í opinberum tölum og sinnir mikilvægu hlutverki við rannsóknir og nýsköpun í íslensku samfélagi. Rannsóknir þeirra beinast gjarnan að viðfangsefnum sem nýtast sem grunnur að hverskonar fræða- og listsköpun innan og utan hins opinbera menntakerfis. Niðurstöður þeirra eru oftast ritaðar á íslensku með íslenskan almenning í huga. Þá nýtast verk sjálfstætt starfandi fræðimanna gjarnan til nýsköpunar til dæmis í ferðaþjónustu og ýmiss konar afþreyingu.
Í fjárlagagerð fyrir árið 2023 er lítilega gengið á sjóðinn miðað við fyrra ár og fer hann úr 51,8 m.kr í 51,3 m.kr. Samdrátturinn virðist því 1% fyrir utan breytingu á vísitölunni sem hefur hækkað verulega undanfarið ár.
Lækkunin er þó umtalsvert meiri en þessar tölur gefa til kynna. Á árinu 2022 var mánaðarleg greiðsla úr sjóðnum hækkuð til samræmis við hækkun á starfslaunum listamanna, eða um tæplega 20%. Upphæðin fór úr 410.000 kr (verktakagreiðsla) í 490.920 kr. Til þess að koma til móts við þessa hækkun þá hefur starfslaunasjóður listamanna verið stækkaður. Á þessu ári er hann 812,0 m.kr. en fer í 846,2 m.kr. á árinu 2023.
Hins vegar hefur starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna ekki tekið sömu hækkunum. Þessar breytingar leiddu til mikillar skerðingar á úthlutunum til sjálfstætt starfandi fræðafólks talið í mannmánuðum (sjá töflu). Á árinu 2022 fór fjöldi mannmánaða niður í 93 sem er mikil fækkun frá árunum á undan en þeir voru á bilinu 111 til 129 á árunum 2018 – 2021.
ÁR |
2018 | 2019 | 2020 | 2021 | 2022 |
Styrkupphæð á mánuði (verktakagreiðsla) |
377.000 | 393.000 | 405.000 | 410.000 | 490.920 |
Fjöldi úthlutaðra mánuði | 120 | 111 | 117 | 129 | 93 |
Vegna þessa áréttar stjórn RA mikilvægi þess að framlög til Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna verði hækkuð verulega á árinu 2023, til að bregðast við þessari stöðu.