Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Nýr umræðuvettvangur, Bakthín á Íslandi og syngjandi súpa

3. November 2022 kl. 12:00 - 13:00

Demónar nær og fjær!
Í hádeginu verður boðið upp á súpu við háborðið í ReykjavíkurAkademíunni (Þórunnartúni 2)  um leið og hleypt verður af stokkum nýjum viðburði — samræðuvettvangi um verk í vinnslu og hugmyndir í mótun.
Fyrsta fimmtudag í mánuði mun akademón stíga á stokk og kynna verk í vinnslu eða hugmynd sem viðkomandi vill þróa áfram. Gunnar Þorri Pétursson ríður á vaðið og kynnir væntanlega bók sína, „Bakhtínskí búmm: Um ris og fall Míkhaíls Bakhtíns í fræðilegri umræðu á Íslandi“.
Markmiðið með þessum samræðuvettvangi — sem enn hefur ekki hlotið nafn — er að bjóða hlustendum inn í óklárað verk eða aðra deiglu sem enn hefur ekki storknað. Í hverju felast áskoranirnar andspænis hinu ókláraða, hinu ósagða? Málshefjandi leggur spilin á borðið og síðan hefst samræða við súpuslafrandi demóna.
„Þræll, ég hef lagt líf mitt í þetta kast og ég mun hlíta hvarfi teningsins“ segir í einu leikrita Shakespeares. — Vonandi sjá sem flestir sér færi á að mæta og móta þennan nýja vettvang.
Gunnar Þorri (f. 1978) er þýðandi rússneskra bókmennta. Hann hefur fengið íslensku þýðingaverðlaunin í tvígang; fyrst ásamt Ingibjörgu Haraldsdóttur fyrir skáldsögu Fjodors Dostojevskís Hinir smánuðu og svívirtu og síðan fyrir Tsjernobyl-bænina eftir Svetlönu Aleksíevítsj. Gunnar Þorri er jafnframt með meistarapróf í bókmenntafræði og Bakhtínskí búmm var upprunalega lokaritgerð hans frá Háskóla Íslands.
Míkhaíl Bakhtín (1895–1975) hét rússneskur hugsuður sem hafði gríðarleg áhrif á bókmenntafræði og alþjóðlega þróun hugvísinda með skrifum sínum um samræðuna, margröddun skáldsögunnar, hið karnivalíska í menningunni og margt fleira.

Details

Date:
3. November 2022
Time:
12:00 - 13:00

Venue

Við stóra borðið
Þórunnartúni 2
Reykjavík, world without borders 105 Iceland
+ Google Map
Phone
+3545628565