Kæri demón,
“Eitt sinn demón, ávallt demón” hefur verið mottó okkar í RA frá upphafi. Mörg ykkar hafa horfið frá Akademíunni til annarra starfa en við treystum því að taugin sé sterk á þessum tímamótum sem 25 ára afmæli ReykjavíkurAkademíunnar óneitanlega er.
Á afmælisárinu ætlum við að fagna og þakka þeim sem gengu á undan og ruddu brautina, en ekki síður að horfa fram á veginn og halda ótrauð áfram.
Undanfarin ár hefur verið unnið öflugt uppbyggingarstarf í Þórunnartúni 2. Nú breiðum við úr okkur á fyrstu tveimur hæðum hússins. Á annari hæðinni er skrifstofa stofnunarinnar og fræðafólk Akademíunnar en á fyrstu hæðinni er Bókasafn Dagsbrúnar ásamt fundarherbergi og langþráðum fundarsal. Við höfum fest okkur tækjabúnað sem gerir okkur kleift að taka upp og streyma frá fundum og ráðstefnum. Enn er þó brýn þörf á að endurnýja búnað okkar og þróa okkar rafrænu miðla, ekki síst fyrir nýjar kynslóðir sem ennþá brenna fyrir því að sinna fræðum, listum og menningu.
Til þess að akademían megi eflast og dafna enn frekar um ókomin ár, geti eflt fræðilega starfsemi sína, félags- og stjórnunarstarf biðlum við til ykkar demóna að þið leggið okkur lið, allir sem einn, með stofnun afmælissjóðs til að fjármagna kostnað við fjarfundabúnaðinn okkar, sem nemur um tveimur milljónum króna. Akademían mun því senda þér gíróseðil að upphæð 5000 krónum. Stjórnir Akademíunnar bera ábyrgð á sjóðnum og endurskoðendur tryggja að allt fari eftir settum reglum. Á vefsíðunni okkar er Tabula Gratulatoria í þakklætisskyni.
Með góðri von um jákvæðar undirtektir og megi ReykjavíkurAkademían lengi lifa!