Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, sagn- og kynjafræðingur og sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi laugardaginn 25. júlí.
Þorgerður var fædd 9. maí árið 1968 dóttir hjónanna Guðrúnar Bjarnadóttur og Þorvaldar H. Jónssonar á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal og þar ólst Þorgerður upp ásamt systrum sínum. Eiginmaður hennar er Ágúst Ásgeirsson og stjúpsonur Ingimundur Ágústsson.
Þorgerður lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri 1988 og BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1995. MA prófi í kynjafræðum og femínískum kenningum frá The New School of Social Research í New York lauk hún 1998 og doktorsprófi í kynjafræðum frá Háskóla Íslands 2012. Frá 2006–2007 var Þorgerður Marie Curie styrkþegi við Tema Genus við Linköping háskóla í Svíþjóð
Þorgerður gekk til liðs við ReykjavíkurAkademíuna árið 1999. Þar vann hún að fjölbreyttum rannsóknarverkefnum, ein og í samstarfi við aðra, eins og Homosexuality, Criminal Justice and Criminal Discourse in Scandinavia 1864-2000 og í öndvegisverkefninu Ísland og ímyndir norðursins. Bókin Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi sem þær Bára Baldursdóttir sagnfræðingur skrifuðu kom út 2018 en hún er hluti af Safni til Iðnsögu Íslendinga. Undanfarin ár vann Þorgerður ásamt öðrum að ritun á bókinni Konur sem kjósa. Aldarsaga í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna. Þá var hún sérfræðingur í verkefninu Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915-2015 hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands.
Doktorsritgerð Þorgerðar From Gender Only to Equality for All. A Critical Examination of the Expansion of Equality Work in Iceland fjallaði um útvíkkun jafnréttishugtaksins og hvernig jafnréttisorðræður og jafnréttisstarf hefur þróast og breyst frá því að snúast um jafnrétti kynjanna í það að sinna jafnrétti ýmissa minnihlutahópa og vinna gegn margþættri mismunun.
Rannsóknir Þorgerðar beindust því að jafnrétti í víðum skilningi, kynjaðri menningu og kynjaímyndum á 20. og 21. öld. Þannig skoðaði hún orðræður og hugmyndir sem tengjast „ótrúlegri fegurð íslenskra kvenna“, „hinu jafnrétta norðri“, útvíkkun jafnréttishugtaksins, takmörkunum kosningaréttarins, ímyndum rakara- og hárgreiðslustofa og líkamsbyltingum kvenna.
Félagar Þorgerðar í ReykjavíkurAkademíunni votta aðstandendum hennar innilega samúð sína