Sesselja G. Magnúsdóttir framkvæmdastjóri er höfundur skýrslunnar en hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri RA frá því í september 2014. Í árskýrslunni er að finna ítarlegt yfirlit yfir starfsemi RA, daglegan rekstur, starfsmannahald, helstu rannsóknarverkefni tengd stofnuninni og yfirlit yfir ráðstefnur og málþing sem haldin voru í ReykjavíkurAkademíunni á árinu 2014.
ReykjavíkurAkademían ses (RA) er sjálfseignarstofnun sem byggir á grunni Félags ReykjavíkurAkademíunnar en það er félag sjálfstætt starfandi fræðimanna í menningar-, hug- og félagsvísindum á Íslandi.
Árið 2014, var ár breytinga hjá ReykjavíkurAkademíunni. Flutt var úr JL húsinu við Hringbraut sem verið hefur aðsetur RA frá stofnun í Þórunnartún 2 í lok árs auk þess sem Sólveig Ólafsdóttir sem stýrt hefur stofnununni síðast liðin fjögur ár sté úr framkvæmdastjóra stólnum. Mikilvægt skref var stígið í uppbyggingu innra starfs RA þegar RannsóknarSmiðja RA (RaRA) var formlega stofnuð í upphafi árs til að halda utan um fræðilega viðburði og styðja fræðimenn innanhúss í styrkjaumsóknum. Málþing voru haldin undir nafni H-21, Hugmyndir 21. aldarinnar auk aðkomu að ýmsum öðrum viðburðum í samvinnu við ýmis félagasamtök. Umsýsla vegna rannsóknarverkefna var töluverð og voru 5 fræðimenn að jafnaði á launaskrá RA. Einnig var nokkuð um verktakagreiðslur til fræðimanna vegna ýmissa rannsóknar- og þjónustuverkefna stórra sem smárra.
Daglegur rekstur stofnunarinnar var í jafnvægi árið 2014 eins og árin á undan en kostnaður við flutningana gerði að eigið fé stofnunarinnar lækkaði um helming. Alls voru rekstrartekjur RA rúmar 61 milljón á árinu 2014 en höfðu verið tæpar 59 milljónir árið 2013. Munurinn skýrist á fleiri rannsóknarstyrkjum en árið á undan. Rekstrargjöld ársins hækkuðu á milli ára úr rúmum 57,5 milljónum á árinu 2013 í rúmar 66 milljónir. Ástæður hækkunarinnar eru einkum tvær. Annars vegar kostnaður vegna flutninga upp á rúmar 5,3 milljónir og hins vegar hækkun launaliðs vegna ráðningar nýs starfsmanns í RannsóknarSmiðjunnar. Eigið fé stofnunarinnar nam rúmum 10 milljónum í árslok 2013 en var komið niður í tæpar 5 milljónir í árslok 2014 eins vegna flutninganna. Tap á rekstri RA nam kr. 5.1 á árinu 2014 en var kr. 1,5 milljónum á árinu 2013. Greidd laun voru 22,6 milljónir árið 2014 en voru 21,3 milljónir í árslok 2013. Breytingar á launakostnaði tengjast auknu starfshlutfalli innan stofnunarinnar vegna RaRA og breytinga á launakostnaði tengdum rannsóknarverkefnum.
Ársskýrslu RA-ses má nálgast hér í heild sinni.
Kjörin var ný stjórn Félags ReykjavíkurAkademíunnar á aðalfundi félagsins 22. apríl 2015
Stjórnina skipa:
Dr. Ingimar Einarsson félags- og stjórnmálafræðingur, formaður
Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur
Dr. Þorgerður Þorvaldsdóttir sagn- og kynjafræðingur
Björg Árnadóttir menntunarfræðingur
Borgþór Kjærnested fararstjóri og leiðsögumaður
Einnig var ný stjórn ReykavíkurAkademíunnar ses. Kjörin á sama fundi.
Stjórnina skipa:
Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur og doktorsnemi, formaður
Dr. Ingimar Einarsson félags- og stjórnmálafræðingur, varaformaður
Guðbjörg Lilja Hjartardóttir
Dr. Íris Ellenberger sagnfræðingur
Gylfi Gunnlaugsson bókmenntafræðingur
Gylfi Ólafsson heilsuhagfræðingur og doktorsnemi
Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur og MA í menningarstjórnun