1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Ástverk ehf 19. mars

Ástverk ehf 19. mars

by | 18. Mar, 2009 | Fréttir

Léttur samtíðargamanleikur um þrjá íslenska fúskara […] Snyrtilega fram sett […] Manni leiðist yfirleitt ekki neitt þær 75 mínútur sem sýningin tekur. Jón Viðar Jónsson.

Iðnaðarmannaleikhúsið sýnir verkið Ástverk ehf í ReykjavíkurAkademíunni 19. mars klukkan 20.00. Miðaverð er 1.500 krónur.

Ástverk ehf er nýtt íslenskt verk sem varð til upp úr samvinnu leikhópsins Iðnaðarmannaleikhúsið. Verkið byggir bæði á sönnum sögum af vinnustöðum og spunavinnu. Ástverk ehf er grátbroslegt verk með alvarlegum undirtóni sem skoðar stöðu iðnaðarmanna á Íslandi á breytingatímum, en kemur einnig töluvert inn á ímynd karlmennskunar í nútímaþjóðfélagi.

Smellið hér til að taka frá miða.

Verkið er flutt af Bjarna Snæbjörnssyni, Finnboga Þorkatli Jónssyni og Páli Sigþóri Pálssyni. Leikstýring er í höndum Árna Kristjánssonar. Hljóðhönnun er unnin af Lydíu Grétarsdóttur.

Iðnaðarmannaleikhúsið er nýstofnaður leikhópur sem fjallar um stemmninguna meðal iðnaðarmanna og samanstendur hópurinn af leikhúslistamönnum sem allir hafa reynslu af iðnaðarstörfum. Meðlimir Iðnaðarmannaleikhússins eru allir í yngri kantinum, á aldrinum 25 til 34 ára.

Skemmtilegri sýning en margar aðrar. Fréttablaðið

 

Um verkið :
Ástmar er fljótfær iðnaðarmaður sem vinnur fyrir verktakafyrirtækið HafnarVerk. Til þess að græða meira á vinnu sinni stofnar Ástmar eigið fyrirtæki, Ástverk ehf. og stelur verkefni frá HafnarVerki. Fyrsta verk Ástverks ehf. felst í því að endurinnrétta íbúð í Fossvoginum. Það eina sem vantar er góður maður til að spjalla við í kaffinu. Ef þú ert með góð verk, góða menn og ehf. geturðu ekki klikkað.
Grímur, vinur Ástmars, felst á að vinna með Ástmari og hætta hjá HafnarVerki. Ástverk ehf. er saga þessara tveggja manna og sagan af því hvernig þeim tekst ásamt Vidda, frænda Gríms, að vinna verk sem virðist á köflum vera óðs manns æði. Að minnsta kosti svona í miðri kreppunni.
Í verkinu eru lygar, svik og vondir brandarar í löngum kaffipásum. Restin reddar sér bara.

Þetta var skemmtilegt. Og leikhús á að vera það. Árni, blikksmiður á eftirlaunum.

Ég þekki alla þessa menn. Valdi, byggingatæknifræðingur.

Alveg stórsniðugt hjá strákunum, alveg stórsniðugt. Steini, rafvirki.

Ógeðslega fyndin. Gunni, teppalagningamaður.

 

Finnbogi Þorkell Jónsson útskrifaðist sem leikari frá Film/Teaterskolen Holberg í Kaupmannahöfn vorið 2007 og var meðlimur The Actor Center of London á haustmánuðum sama ár. Eftir heimkomu hefur hann m.a. leikið í stuttmyndunum Limbus, Tregasteinni og 285/0. Einnig hefur hann tekið að sér veislustjórnun með stand-up ívafi, upplestur eigin verka og annarra, lagt stund á skriftir og sótt listatengd námskeið hér á landi sem og erlendis.
Til að eiga fyrir grautnum en ekki bara saltinu hefur hann síðan sumarið 2007 rekið Garðaþjónustuna Björk ehf. Finnbogi stofnaði ástam félögum sínum leikhópinn Iðnaðarmannaleikhúsið haustið 2008 og er framkvæmdastjóri hópsins.

Páll Sigþór Pálsson nam leiklist við The Guildford School of Acting í Englandi. Þar hefur hann leikið með farandleikhópnum The Rude Mechanical Theatre Company um margra ára skeið og meðal sýninga þeirra má nefna; Two Gentlemen of Verona, Twelfth Night, The Odyssey og The Fairy Queen. Ásamt fleiri störfum í leikhúsi í Englandi starfaði Páll einnig m.a. sem hraðsendill á mótorhjólum og einkabílstjóri í London.
Hér heima hefur Páll komið víða við í leiklistinni,allt frá veraldarvefsuppsetningu LabLoka á Auroura Borealis í hlutverki Strindbergs til hins pólska sviðsstjóra Vladímírs í Stundinni Okkar og Georgs leikfimikennara í Footloose. Í Hafnarfjarðarleikhúsinu lék hann Kórofév í Meistaranum og Margarítu,þá kom hann við sögu í uppsetningu Þjóðleikhússins á Virkjuninni og einnig kom hann fram hjá leikfélagi Akureyrar nýverið í sýningunum Svartur Köttur eftir Martin Macdonagh og Lífið-Notkunarreglur eftir Þorvald Þorsteinsson.
Á Íslandi hefur Páll einnig unnið töluvert við ýmis önnur störf svo sem dyravörður á ýmsum knæpum,sviðsmaður hjá Sjónvarpinu og nú síðast sem búslóðaflutningsmaður. Um þessar mundir er hann að klára kvikmyndina Courier sem hann hefur skrifað og leikstýrt ásamt því að leika í og fjallar um Kosovo-Albana sem leitar bróður síns í Afríku.

Bjarni Snæbjörnsson lauk leikaranámi með BFA gráðu frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands 2007. Lokaverkefni hans í Nemendaleikhúsinu voru Hvít kanína og Blóðbrúðkaup, sem sett voru upp í Borgarleikhúsinu, og Lífið-notkunarreglur í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Hann lék hlutverk Péturs í Jesus Christ Supertar hjá Borgarleikhúsinu veturinn 2007-2008 Bjarni hefur verið leiklistarkennari við Leynileikhúsið veturinn frá hausti 2007 og hefur kennt börnum leiklist víða um land. Þá hefur hann einnig leikið í leikritum fyrir leikskóla. Bjarni hefur sungið á fjölmörgum tónleikum, lesið inn á teiknimyndir, leikið í auglýsingum og verið skemmtikraftur í veislum og við hin ýmsu tækifæri. Þá er hann annar helmingur hins konunglega söngleikjapars Viggó og Víólettu. Bjarni mun leikstýra uppfærslu Leikfélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ á Chicago eftir áramót. Bjarni hefur einnig unnið við saltfiskverkun, gróðursett tré, unnið í laxeldi, er lunkinn slægingamaður og hefur mikla reynslu af löndun og lyftarakeyrslu.

Árni Kristjánsson er leikstjóri Ástverks ehf. Mest hefur Árni unnið með samþættingu leikstjórnar og handritagerðar en hann útskrifaðist frá Fræði og framkvæmd Leiklistardeildar LHÍ, vorið 2008. Árni hefur leikstýrt, kennt og skrifað leikrit en nú síðast í vor var Árni aðstoðarmaður Sveins Einarssonar í Íslensku Óperunni við uppsetningu á Cavalleriu Rusicana og Pagliacci. Einnig hefur Árni hefur unnið við garðyrkjustörf, fiskvinnslu, hellulagningar, uppvask og steypt einingar hjá B.M. Vallá.

Frekari upplýsingar veitir: Finnbogi Þorkell Jónsson í síma 867-0927 eða gegnum [email protected] og Kristján Hans Óskarsson í síma 867-2675 eða gegnum [email protected]

Hópurinn heldur úti síðunni http://idnadarmannaleikhusid.blogspot.com