Stjórn ReykjavíkurAkademíunnar hefur sent forsætisráðherra og öðrum ráðherrum sem sitja í Vísinda- og tækniráði, bréf í tilefni af úthlutun úr Rannsóknasjóði og í framhaldi af tillögum stjórnar Vísindafélags Íslendingar til sömu aðila sem miða að því að efla Rannsóknasjóð og bæta umhverfi grunnrannsókna á Íslandi. Þar er lagt til að fjárfesting stjórnvalda í rannsóknir og þróun fylgi Barcelona-viðmiðum aðildaríkja Evrópusambandsins og hækki úr 0.72% af VLF (vergri landsframleiðslu) árið 2018 í 1% af VLF. Einnig að aukning fari alfari í grunnrannsóknir og verði úthlutað til okkar hæfust vísindamanna í gegnum Rannsóknasjóð. Stjórn RA styður ennfremur eftirfarandi tillögur Vísindafélagsins:
- Að tryggt verði að fjármögnun sjóðsins haldi í við efnahagsþróun. Lagt er til að fjármögnun sjóðsins verði bundin við verga landsframleiðslu á svipaðan hátt og framlög Íslands til rammaáætlunar Evrópusambandsins
- Ríkið fari í sértækar aðgerðir og ívilnanir til þess að hvetja til stofnunar einkasjóða og fjárfestingar einkaaðila í grunnrannsóknum að fyrirmynd erlendra sjóða eins og til dæmis Carlsberg-sjóðsins í Danmörku.
- Fylgja þarf fjárfestingu í grunnrannsóknum eftir þar til Ísland stendur jafnfætis nágrannalöndunum í vísindafjármögnun
Einnig, og ekki síður, vekur stjórn Ra athygli Vísinda- og tækniráðs á að hlutfall styrkja til hugvísinda af heildarúthlutunarupphæð hefur lækkað úr 18.02% á árinu 2019 í 5.13% á árinu 2020 og af upphæð öndvegis- og verkefnisstyrkja úr 17.23% í 4.16%. Um leið bendir stjórn RA á að óheftar rannsóknir hugvísindamanna gegna margþættu menningarlegu- og samfélagslegu hlutverki og stuðla að víðsýni og auknum skilningi okkar á eigin umhverfi og auka á þann hátt lífsgæði þjóðarinnar. Þannig treysta rannsóknir á hugvísindasviði stoðir íslenskrar menningar sem er annað af tveimur meginhlutverkum Vísinda- og tækniráðs, sbr. 1.gr laga um Vísinda- og tækniráð nr. 2/2003.
Í meðfylgjandi töflu má sjá þróun hlutfalls styrkja Rannsóknasjóðs til hugvísinda af heildarúthlutunarupphæð sl. 5 ár:
2016 | 2017 | 2018 | 2019 | 2020 | |
Af heildarupphæð | 14.95% | 9.58% | 18.92% | 18.02% | 5.13% |
Af upphæð öndvegis- og verkefnastyrkja | 13.87% | 6.10% | 18.82% | 17.23% | 4.16% |
Hér má lesa Bréf til forsætisráðherra 27. janúar 2020_og bréf stjórnar Vísindafélags Íslands á heimasíðu félagsins.