1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Bókasafn Dagsbrúnar lokar

Bókasafn Dagsbrúnar lokar

by | 1. Jun, 2024 | Fréttir, Gárur

Undirritun samnings um Bókasafn Dagsbrúnar 2021-2023

Árið 2021 var síðasti samningur RA og Eflingar um rekstur bókasafnsins undirritaður.

Bókasafn Dagsbrúnar, sérfræðisafn um íslenska verkalýðshreyfingu og vinnumarkað sem er í eigu Eflingar ̶  stéttarfélags hefur verið lokað frá og með 1. júní 2024. Saga safnsins er löng, en til þess var stofnað 26. janúar 1956 á 50 ára afmæli Verkamannafélagsins Dagsbrúnar.

Þann dag gaf Guðrún Pálsdóttir, ekkja Héðins Valdimarssonar fv. formanns Dagsbrúnar og fyrsta formanns Sósíalistaflokksins, félaginu bókasafn þeirra hjóna til minningar um Héðin. Stofn safnsins eru bækur Héðins sem var öflugur bókasafnari auk þess sem hluti bókanna er kominn úr eigu foreldra hans, Valdimars Ásmundssonar ritstjóra og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem lengi var formaður Kvenréttindafélags Íslands.

Bókasafnið var opnað almenningi í félagsheimili múrara og rafvirkja að Freyjugötu 27 í Reykjavík þann 10. desember 1960 og var frá upphafi ætlað að starfa í þágu almennings og eigenda sinna. Þá voru 3.415 bækur skráðar í safninu. Eftir það var safnið til húsa á ýmsum stöðum í Reykjavík, lengst af í húsakynnum Dagsbrúnar við Lindargötu og síðar í Skipholti. Safninu var frá upphafi sýndur verðugur sómi og natnir bókaverðir gerðu spjaldskrá um safnkostinn að þeirra tíma hætti. Safnið var opið félagsmönnum Dagsbrúnar sem og öðrum til skoðunar og afnota um árabil. Á endanum lenti það þó á hrakhólum og endaði í kössum og geymslu eftir að Dagsbrún, sem þá hét Efling – stéttarfélag, flutti árið 2000 í Guðrúnartún 1, í Reykjavík.

 

ReykjavíkurAkademían tók við umsjón og daglegum rekstri safnsins með samningi við Eflingu – stéttarfélag, 27. nóvember 2003. Þann dag var safnið opnað fræðimönnum og almenningi í húsnæði  ReykjavíkurAkademíunnar í JL–húsinu við Hringbraut í Reykjavík. Þaðan flutti safnið síðla hausts 2014 í ný húsakynni ReykjavíkurAkademíunni á 4. hæð Þórunnartúns 2 og opnaði þar á nýjan leik í lok janúar 2015.

Sumarið 2020 var bókasafnið flutt á 1. hæð sömu byggingar til þess að auka aðgengi og sýnileika safnsins og bæta varðveisluskilyrði fágætustu bókanna. Einnig var markmiðið að bæta vinnuaðstöðu starfsmanns safnsins og gesta þess. Safnið enduropnað í lok febrúar 2021 rétt rúmum 65 árum eftir að Guðrún Pálsdóttir afhenti Verkamannafélaginu Dagsbrún gjöfina góðu.

Áður en að Efling ákvað að leggja safnið niður fóru fram samningaviðræður milli félagsins og ReykjavíkurAkademíunnar. Báðum samningsaðilum var ljóst að komið var að breytingum og sem liður í þeirri vinnu þá lögðu fulltrúar ReykjavíkurAkademíunnar fram tillögu um að breyta safninu í þekkingarmiðstöð þar sem áhersla yrði á stofnunar Vefgáttar þar sem áhersla yrði á sögu og samtíð verkalýðsbaráttunnar og aðgengi að heimildum. Hér má kynna sér tillöguna sem fékk heitið Dagsbrún – Þekkingarmiðstöð. Framtíð Bókasafns Dagsbrúnar  og í skýrslunni Starfsemi Bókasafns Dagsbrúnar 2021-2023. Skýrsla formanns fagstjórnar og framkvæmdastjóra ReykjavíkurAkademíunnar má fræðast nánar um rekstur  safnsins á árunum 2021-2023