Fyrsti alþýðufyrirlestur ReykjavíkurAkademíunnar
Laugardaginn 7. febrúar á milli kl. 12-14 flytur Gunnar Tómasson fyrirlesturinn Brestir í hagfræðinni. Eftir kaffihlé verða almennar fyrirspurnir og umræður. Fundarstjóri er Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur.
Í Silfri Egils, sunnudaginn 1. febrúar sl. var rætt við Gunnar Tómasson hagfræðing sem lengi hefur starfað erlendis við góðan orðstír. Í viðtalinu færði hann skýr rök fyrir því að sá meginstraumur hagfræðinnar sem hvað mestu hefur ráðið um hagstjórn í heiminum sé byggður á röngum forsendum og sé því ómarktækur. Einnig benti hann á að forsendur þeirrar verðtryggingar sem beitt hefur verið á Íslandi undanfarna áratugi séu mjög vafasamar.
Gunnar mun hafa framsögu um þessar hugmyndir en að framsögu lokinni munu valdir sérfræðingar bera fram athugasemdir og spurningar.
Undanfarnar vikur og mánuði hefur farið fram lífleg umræða um ótal hliðar þeirrar kreppu sem nú geisar. Umræðan hefur víða verið málefnaleg, en einnig mótast af hagsmunagæslu, vanþekkingu og slagorðum. ReykjavíkurAkademían hrindir nú af stað fyrirlestraröð í þeim tilgangi að varpa fræðilegu ljósi á ýmsar grundvallarspurningar sem tengjast efnahagshruninu sem hætta er á að verði að víðtæku samfélagshruni.
Fenginn verður einn fyrirlesari til að hafa framsögu. Síðan munu valdir sérfræðingar fengnir til að spyrja gagnrýninna spurninga um efnið fram að kaffihléi en eftir hlé verða almennar fyrirspurnir og umræður.