
Á myndinni eru Camelia Corlatanu, læknir, listmeðferðarfræðingur, ítalskur þýðandi á námskeiðinu, dr. Unnur Óttarsdóttir, listmeð-ferðarfræðingur, kennari, myndlistamaður, rannsakandi og Mimma Della Cagnoletta, listmeðferðarfræðingur, sálgreinir, listamaður, stofnandi Art Therapy Italiana
Teikning auðveldar minni, eflir nám og stuðlar að velferð
Dr. Unni Óttarsdóttur sem stundar rannsóknir og fræðistörf við ReykjavíkurAkademínnu var nýlega boðið að vera aðalfyrirlesari á alþjóðlegri ráðstefnu á Ítalíu sem tileinkuð var sköpunargáfu og skipulögð af ítalskri tilraunastofu um rannsóknir og hæfileika (LabTalento) við Háskólann í Pavia. Fyrirlesturinn var vel sóttur m.a. af sálfræðingum og kennurum sem tóku þátt í teikni- og skrifæfingu til að greina mismuninn á að muna með því að teikna annars vegar og skrifa hins vegar. Niðurstöður sýndu fram á að helmingur þátttakenda á fyrirlestrinum mundi fleiri teikningar en orð, tæplega helmingur mundi jafn mörg teiknuð orð og skrifuð. Aðeins einn þátttakandi mundi fleiri skrifuð orð en teikningar. Einnig var fjallað um hvernig minnisteikning getur aðstoðað við úrvinnslu viðkvæmra og flókinna tilfinninga tengdum áföllum.
Unnur kenndi einnig listmeðferðarfræðingum sem starfa í skólum á námskeiðinu „Listmeðferð og nám: Námslistmeðferð“ og haldið var af Art Therapy Italiana. Fjallað var um námslistmeðferð sem Unnur hefur rannsakað og þróað, þar sem listræn tjáning er notuð bæði í menntunar- og meðferðarlegum tilgangi. Aðferðin var kynnt með verklegum æfingum, umræðum, vísindagreinum og fyrirlestrum í tengslum við grunnhugtök eins og „minnisteikning“ sem auðveldar minni og úrvinnslu tilfinninga. Þátttakendur voru almennt ánægðir með kennslu Unnar og aðferðir námslistmeðferðarinnar sem felur meðal annars í sér að tengja saman tilfinningaúrvinnslu og nám barna í gegnum teikningar.
####
Dr. Unnur G. Óttarsdóttir hefur starfað við listmeðferð í Listmeðferð Unnar og á ýmsum stofnunum í yfir þrjá áratugi. Hún hefur kennt listmeðferð við Listaháskóla Íslands, Símenntun Háskólans á Akureyri, Félag listmeðferðarfræðinga í Bretlandi, Félag listmeðferðarfræðinga í Rúmeníu, Háskólann í Hertfordshire og Art Therapy Italiana. Unnur stundar rannsóknir og fræðistörf í Reykjavíkur Akademíunni og hefur hún skrifað ritrýndar fræðigreinar og bókakafla um listmeðferð, námslistmeðferð og minnisteikningu.