Forsætisráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hafa lagt fram til samráðs tillögu Vísinda- og nýsköpunarráðs um framtíðarsýn stjórnvalda á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Nánari upplýsingar um eru að finna í Samráðsgátt stjórnvalda, mál S-161/2024.
Umsögn ReykjavíkurAkademían um drög að stefnu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar til 2035:
ReykjavíkurAkademían er í forsvari fyrir fræðafólk sem starfar sjálfstætt að rannsóknum og nýsköpun á sviði hug- og félagsvísinda. Umsögn stofnunarinnar um tillögu Vísinda- og nýsköpunarráðs um framtíðarsýn stjórnvala á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar tekur mið af sérstöðu þess hluta vísinda og nýsköpunarsamfélagsins sem er borið uppi af einstaklingum sem sinna rannsóknum og fjölbreyttri þekkingarmiðlun sem beinist að íslensku samfélagi og menningu.
Skilgreining á hugtökum
ReykjavíkurAkademían fagnar því að hugtakið vísindi er skilgreint í upphafi stefnunnar og að þung áhersla er lögð á að þar undir falli allar fræðigreinar og aðrar kerfisbundnar rannsóknir. Stofnunin hvetur til þess að eins verði farið með fleiri hugtök sem notuð eru í stefnunni. Sem dæmi má nefna hugtakið nýsköpun sem gjarnan beinist að þróun nýrra tæknilausna en felur einnig í sér samfélagsleg nýsköpun sem skora viðtekin viðhorf á hólm.
Áhersla á rannsóknir og þekkingarmiðlun sem beinst að íslensku samfélagi
ReykjavíkurAkademían leggur til að við stefnuna verði bætt áhersluþætti sem fjallar um árið 2035 hafi rannsóknir og nýsköpun sem beinast að íslensku samfélagi og mannlífi verið styrktar i sessi. Ætla má að aukið aðgengi almennings að fræðilegu efni um menningu og samfélag sem er ritað á íslensku leggja grunn að fjölbreyttari, gagnrýndari og frjórri samfélagsumræðu og að aðgengi frumkvöðla, stofnana og fyrirtækja að fræðilegu efni á íslensku sem nýtist til nýsköpunar á sviði mennta og menningar.
Áhersluþættir um öflugt rannsóknaumhverfi og eflingu íslensks rannsóknaumhverfis
ReykjavíkurAkademían leggur til að leiðarljós rannsókna- og nýsköpunarstarfsemi verði einnig að auka þekkingu. Eftir breytinguna yrði textinn svona:
- Árið 2035 er öflugt rannsóknaumhverfi á Íslandi þar sem fjölbreyttur hópur hæfileikaríks fólks vinnur saman að öflun og miðlun þekkingar. Leiðarljós rannsókna- og nýsköpunarstarfsemi er að auka þekkingu og skapa ný tækifæri og byggja upp færni til að leysa samfélagslegar áskoranir til lengri tíma. Stefnt er að því að rannsóknir og nýsköpun verði 3,5% af vergri landsframleiðslu.
Á sama hátt verði eitt af hlutverkum íslensks rannsóknaumhverfis að styrkja samfélagsgerðina. Eftir breytinguna yrði textinn á þessa leið:
- Árið 2035 er íslenskt rannsóknaumhverfi nægilega vel í stakk búið til þess að leggja ríkulega til þeirrar sammannlegu viðleitni að bæta heilsu, hagsæld og lífsgæði almennings, styrkja samfélagsgerðina og vernda umhverfið, bæði með markvissum hagnýtum rannsóknum á lykilsviðum og opinberri stefnumótun sem styður við áhugadrifnar grunnrannsóknir á öllum fræðasviðum. Nýsköpunardrifið þekkingarsamfélag og hagkerfi býr þannig yfir vísindalegri sérfræðiþekkingu og nýtur góðs af kunnáttu og þekkingarsköpun leiðandi vísindafólks og frumkvöðla á heimsvísu.