Fræðaþing er árlegur vettvangur sem ReykjavíkurAkademían skapaði um samstarf fræðafólks sem starfar utan og innan háskólana að rannsóknum og þekkingarmiðlun á sviði hug- og félagsvísinda. Vettvangurinn verður nýttur til þess að skapa sameiginlega sýn fræðafólks sem starfar að rannsóknum og þekkingarmiðlun, ræða tækifæri og ógnanir og leggja grunn að samvinnu um rannsóknir og þekkingarmiðlun þvert á starfsvettvang og ólíkar fræðigreinar.
Fyrsta Fræðaþingið var haldið árið 2023 undir yfirskriftinni –Innan garðs og utan. Annað Fræðaþingið verður haldið haustið 2025 undir yfirskriftinni – Undan huliðshjálminum og mun fjalla um (ó)sýnileika fræðafólks í hagtölum og ekki síst hvað er til ráða. Unnið er að skipulagningu þingsins.
Verkefnastjóri Fræðaþingsins 2025 er Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir sagnfræðingur og safnafræðingur í ReykjavíkurAkademíunni. Anna Þorbjörg leggur stund á doktorsnám í sagnfræði við Háskólann í Gautaborg og var framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar frá nóvember 2018 til og með desember 2024.
Hægt er að hafa samband við Önnu Þorbjörgu á netfanginu > att [hja] akademia.is < og fá þar nánari upplýsingar um Fræðaþingið 2025 eða leggja fram hugmyndir og tillögur um efni og efnistök. Í því samhengi má benda á minnisblað frá árinu 2022 þar sem fjallað er um ósýnileika Fræðigreina í hagtölum og til hvaða fjölþættu ráða þarf að grípa til þess að auka sýnileika fræðafólks á atvinnumarkaði og í hagtölum. Einnig á grein sem Anna Þorbjörg og Lilja Hjartardóttir rituðu í vorhefti Sögu árið 2023 undir heitinu Undan huliðshjálminum. Fræðasamfélagið utan háskólanna.
Þess má geta að Anna Þorbjörg er formaður Faghóps fræðafólks sem starfar sjálfstætt sem ReykjavíkurAkademían hlutaðist til um að yrði stofnaður árið 2022 innan vébanda Visku – stéttarfélags innan BHM sem hefur látið sig varða hagsmuni sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði.