Sigríður H. Jörundsdóttir hefur hafið störf í ReykjavíkurAkademíunni. Sigríður er með M.A. próf í sagnfræði og helsta rannsóknarsvið hennar er 18. öldin, sakamenn, dómar og refsingar og ómagar, flakkarar og almennt rannsóknir á þeim samfélagshópum sem töldust til lægsta stigs samfélagsins.
Sigríður vinnur að doktorsritgerð með vinnuheitið Ómagar á óöld Fyrirkomulag fátækraframfærslu árið 1703. Lögum samkvæmt var fyrirkomulag fátækraframfærslu um 1700 þannig að grunneining framfærslunnar var heimilið, hverjum forsvarsmanni var skylt að eiga ákveðna grunneign sem nægði til að framfæra þeim og heimilisfólki þeirra. Þeir sem ekki áttu þessa grunneign þurftu að reiða sig á hjálp ættingja sinna. Hefðu ættingjar ekki bolmagn til að sjá um bjargþrota skyldmenni urðu þeir ómagar þeirrar sveitar sem þeir fæddust í eða áttu mesta tiltölu í. Hver hreppur var því ákveðin umgjörð um alla íbúa sína, framfærslueining sem samanstóð af nógu mörgum heimilum til að sjá um íbúa þegar á þurfti að halda.
Manntalið 1703 greinir frá að rúmlega 15% landsmanna voru ómagar. Í manntalinu, jarðabók og kvikfjártali innihalda miklar upplýsingar um fyrirkomulag framfærslumála en vel greinanlegur er munur á milli hreppa hvernig því var háttað. Tilfinningin er að þarna megi sjá þrjú stig framfærslunnar, elsta stig byggir á framfærslu fjölskyldu og dreifingu þeirra um sveitina sem enginn getur framfært, yngsta stigið þar sem niðursetning er orðin ráðandi og ábyrgð framfærslunnar er á höndum sveitarinnar. Millistig einkennist af því að þessum tveimur fyrrgreindum stigum er blandað saman. Ætlunin er að greina þessi ólíku stig framfærslunnar út frá ýmsum þáttum eins og legu hreppa, fólksfjölda, atvinnuhátta og fjölskyldugerðar.
ReykjavíkurAkademían býður Sigríði velkomna í hópinn!