Stofnfundur Félags fornleifafræðinga var haldinn þriðjudaginn 30. apríl 2013 í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar.. Hið nýstofnaða félag verður til við sameiningu beggja starfandi fagfélaga fornleifafræðinga, Fornleifafræðingafélags Íslands (FFÍ) og Félags íslenskra fornleifafræðinga (FÍF). Um 40 fornleifafræðingar mættu á fundinn og eru um 140 manns í hinu nýja félagi. Nýkjörinn formaður er Ármann Guðmundsson. Stjórn skipa að öðru leyti Birna Lárusdóttir, varaformaður, Albína Hulda Pálsdóttir, ritari, Hrönn Konráðsdóttir, gjaldkeri og Kristborg Þórsdóttir, meðstjórnandi.
Meginhlutverk félagsins er efling fornleifarannsókna á Íslandi. Félagið sinnir þessu hlutverki með því að stuðla að faglegum vísindarannsóknum og vandaðri umfjöllun um árangur þeirra í ræðu og riti. Félagið skal einnig gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna, beita sér fyrir löggildingu starfsheitisins fornleifafræðingur og lögð er áhersla á auknar reynslu- og menntunarkröfur við veitingu uppgraftarleyfa.
Stofnfundur FF samþykkti einnig eftirfarandi ályktun:
Félag fornleifafræðinga skorar á íslensk stjórnvöld að efla stuðning við fornleifarannsóknir á Íslandi. Mikil gróska hefur verið í fornleifafræði hér á landi undanfarin 15 ár og margar bækur um fornleifarannsóknir hafa verið gefnar út á síðustu árum; má þar nefna Mannvist, Söguna af klaustrinu á Skriðu, bækur um rannsóknir í Reykholti og á Hofstöðum í Mývatnssveit auk fjölda greina á íslensku og ensku, fyrirlestra, leiðsagna og sýninga fyrir almenning. Fornleifafræði er ómissandi þáttur í menningarsögu Íslands og fornleifar eru auk þess samofnar náttúru og landslagi víða. Mikilvægt er að styðja við fornleifarannsóknir og miðla niðurstöðum þeirra til almennings og ferðamanna á vandaðan hátt í gegnum minja- og menningartengda ferðaþjónustu. Til grundvallar slíkri miðlun þurfa alltaf að liggja vandaðar rannsóknir og tryggt fjármagn.
Frekari upplýsingar má fá hjá: Ármanni Guðmundssyni formanni FF í síma 865 0972 eða Birnu Lárusdóttur varaformanni í síma 820 5583.