ReykjavíkurAkademían mun flytja 1. maí 2025 í nýtt húsnæði í Kvosinni, nýrri ,,menningarmiðju” sem verið er að byggja upp á vegum eigenda Hafnarstrætis 5 og Austurstræti 5 og 8. Húsnæðið mun hýsa ýmis samtök, félög og stofnanir sem starfa á sviði lista og menningar. Þar verður ReykjavíkurAkademían fulltrúi fræðasamfélagsins.
ReykjavíkurAkademían verður á þriðju hæð Hafnarstrætis 5 og teygir sig um brúnna yfir í Aðalstræti 5 og þangað eru félagar ReykjavíkurAkademíunnar og velunnarar hjartanlega velkomnir.
Í nýju húsnæði verður góð aðstaða til að sinna fræðastörfum og þekkingarmiðlun og fjölbreytt þjónusta verður í boði. Í þessari glærukynningu er gefin yfirsýn yfir hvernig ReykjavíkurAkademíunni verður fyrir komið í Hafnarstræti og hér neðar er lýsing á þeirri vinnuaðstöðu sem verður í boði.
Hefurðu áhuga á að taka þátt? Ekki hika við að við senda okkur fyrirspurn á ra [hja] akademia.is eða senda inn umsókn að senda okkur umsókn og tryggja þér þannig vinnuaðstöðu í Hafnarstræti 5.
Vinnuaðstaðan
Miðað við fyrirliggjandi teikningar þá verða 35 vinnuborð í Hafnarstræti 5. Auk aðgangs að samfélaginu og þeirri þjónustu sem boðið er uppá þá er innifalið í leigu á vinnuaðstöðu aðgangur að Gáfnaskríni og Afdrepi, tveimur litlum fundarherbergjum sem nær eingöngu eru ætluð innanhúsfólki. Eina undantekning er aðgangur að Podkast-aðstöðu sem verður í öðru hvoru herberginu.
Vinnuborð fyrir fræðafólk
Flest vinnuborðin eða átján alls eru í þremur herbergjum sem hvert um sig rýmir sex borð. Sama leiguverð, s.k. grunngjald, er á öllum þessum vinnurýmum.
Fjögur borð eru í tveimur tveggja manna herbergjum og eitt borð er í einstaklingsherbergi. Leiguverð borða er nokkuð hærra og byggir á grunngjaldi að viðbættu fermetragjaldi sem fer eftir stærð herbergjanna.
Ungt fræðafólk
Í stóru herbergi sem snýr í norðvestur eru tólf borð ætluð fyrir doktorsnema og nýdoktora og ungt fræðafólk á sem er að hasla sér völl sem sjálfstætt starfandi fræðimenn og/eða vinnur að MA ritgerðum, útgáfu fræðirita og greina eða sambærilegum verkefnum eða eru í tímabundnum rannsóknum við verkefni sem eru á vegum ReykjavíkurAkademíunnar. Þessir aðilar njóta 30% afsláttar af grunnleigunni. Á móti er gerður samningur um að þeir sem þar starfa kenni sig við ReykjavíkurAkademíuna og eru hluti af og taki þátt í rannsóknarsamfélaginu í RA.
Opin vinnurými
Nokkuð hluti aðstöðunnar fyrir fræðafólkið er nýtt fyrir opin vinnurými. Þarna verða í boði lítil borð og byggir aðgengið að þeim á reglunni fyrstur kemur fyrstur fær. Sérstakar reglur verða mótaðar varðandi nýtingu þeirra. Meðal annars verður aðgangurinn bundinn einstaklingnum, ákveðin tímamörk verða á notkuninni (klukkustundir á viku), fyrirvari er gerður við að öll borð geta verið upptekin og að rýmið getur verið lokað vegna viðburða á vegum RA/FRA.
Notendur opinna rýma greiða sérstakt mánaðargjald fyrir aðganginn og er innifalið í því gjaldi: aðgengi að Hafnarstræti 5, aðgangur að neti, skanna/prentara og fundarherbergjunum Afdrepi og Gáfnaskríni og að podkast-búnaði. Einnig þátttaka í innra starfi akademíunnar t.d. Öndvegi og viðburðum sem skipulagðir eru af stjórn Félags ReykjavíkurAkademíunnar (FRA). Þá þarf að huga að því hvort boðið er upp á tölvuskjái.
Skrifstofur fyrir félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki
Tvær skrifstofur eru ætlaðar félagasamtökum, stofnunum eða fyrirtækjum sem starfa á sviði hug- og félagsvísinda. Leiguverðið er nokkuð hærra en grunngjaldið sem fræðafólk greiðir og auk þess vikuleg afnot af fundaraðstöðu RA Handan brúar og afnot af Dagsbrún fyrir félagsfundi einu sinni á önn.
Leiga á funda- og fyrirlestraaðstöðu
Stjórn þarf að festa niður leiguverð fyrir funda- og fyrirlestraaðstöðu sem samanstendur af Dagsbrún, fundarsal og tveimur fundarherbergjum, Ráðslagi og Handan brúar. Notkun rýmanna skal fyrst og fremst samræmast hlutverki ReykjavíkurAkademíunnar.
Við ákvörðun á grunngjaldi þarf að hafa hliðsjón af verði á sambærilegum rýmum sem eru í boði hjá helstu samkeppnisaðilum Akademíunnar og stjórn þarf að festa niður sanngjörn afsláttarkjör fyrir félaga FRA og samstarfsaðila Akademíunnar. Sjá dæmi um ,,vöru“ og gjaldflokka í töflu 2.
Í fyrirliggjandi tekjumódeli er gert ráð fyrir að innifalið í leigu á vinnuaðstöðu til einstaklinga og félagasamtaka sem leigja aðstöðu í Hafnarstræti sé aðgangur að fundarherberginu Handan brúar einu sinni í viku og að félagasamtök geti haldið félagsfundi í Dagsbrún einu sinni á önn.
Athugið að framlag ReykjavíkurAkademíunnar til samstarfs um hvers konar fræðilega viðburði og þekkingarmiðlun felst í niðurfellingu leigu.
________
Aðbúnaður í ReykjavíkurAkademíunni. Reglur um aðbúnað í ReykjavíkurAkademíunni samþykktar 18. október 2023.