Á föstudaginn kl. 17:00 opnar í Hoffmannsgalleríi sýning á teikningum unnum með nytsemi að leiðarljósi.
Teikningin er allt í kringum okkur í endalausum myndum og tilbrigðum. Fyrir utan hina listrænu notkun gegnir hún margskonar hlutverkum öðrum, svo sem undirbúnings- og hugmyndavinnu fyrir margvísleg verkefni, lýsing á hlutum og fyrirbærum og sem þáttur í ýmis konar leiðbeiningum og fyrirmælum. Mikilvægi vinnuteikningarinnar felst oft í því að í gegnum teikninguna er verkið úthugsað og þannig er teikningin fyrsta skrefið í framkvæmd hlutarins.
Teikningarnar á sýningunni eru allar undir hinum hagnýta hatti. Þær þjóna eða eru unnar með hagnýtu hugarfari, sem vinnuteikningar eða skráning fyrbæra. Höfundar verkanna eru: hönnuður, rafvirki, húsgagnasmiður, gullsmiður og fagteiknarar, þar á meðal kortagerðamenn. Í sumum verkanna býr fegurðarhugsunin að baki, eins og hjá hönnuðinum og í gömlu staðarteikningunum, en hjá rafvirkjanum er slíkt hugarfar væntanlega víðs fjarri, þó fegurðin loði vissulega við þær.
Uppdrættirnir fengnir úr þjóðskjalasafninu eru nostursamlega teiknaðir. Það engu líkara en teiknararnir, væntanlega fagmenn í flestum tilfellum, hafi ekki getað ráðið við sína listrænu fingur, þó þeir hafi skilað hinum hagnýta þætti á viðeigandi hátt. Vinnuteikningar iðnaðar- og handverksfólks síðustu aldar hafa á sama hátt hver sín höfundareinkenni sem auk fyrstu ljósritunaraðferðarinnar, blá-prentsins (blue-print), bera vitni um horfinn heim sem þarf að gæta að og varðveita.
Á sýningunni eru:
Ljósrit af teikningum úr Þjóðskjalasafni Íslands, einnig
vinnuteikningar húsgagnasmiðs, rafvirkja, gullsmiðs og hönnuðar.
Hoffmannsgallerí er staðsett í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar á 4. hæð JL hússins við Hringbraut 121.
Sýningin er opin alla virka daga frá 9:00 – 17:00 og stendur fram eftir vetri.
Sýningarstjórar og umsjónarmenn Hoffmannsgallerís eru:
Kristinn G Harðarson
símar: 551 1269 / 897 6710
Sólveig Aðalsteinsdóttir
551 1949 / 692 1194