1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Hoffmannsgallerí VINNUSTOFA 2010-11

Hoffmannsgallerí VINNUSTOFA 2010-11

by | 6. May, 2011 | Fréttir

ingi hrafn stefnsson.jpg

Mynd eftir Inga Hrafn Stefánsson

Föstudaginn 6. maí, kl. 17:00 opnar sýningin

VINNUSTOFA 2010-11 í Hoffmannsgalleríi.

ReykjavíkurAkademían Hringbraut 121 (JL-húsið) 4. hæð

Á sýningunni eru verk eftir 7 listamenn sem hafa unnið í nokkurs konar vinnustofu í Myndlistaskólanum í Reykjavík í vetur. Vinnustofan er samstarfsverkefni Myndlistaskóla Reykjavíkur og Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar. Síðastliðna þrjá vetur hefur Myndlistaskólinn boðið heilsvetrarnám í myndlist fyrir fatlað fólk og er markmið námsins að þátttakendur kynnist helstu aðferðum í hugmyndavinnu og útfærslu í myndlist og þeir finni eigin styrk og listræna sérstöðu. Vinnustofan er hugsuð sem framhald þess náms.

Í upphafi vetrar var byrjað á því að kanna hvað hver einstaklingur hefði áhuga á að gera og með tiliti til þess og fyrri vinnu og verka stakk leiðbeinandinn upp á plani fyrir hann að vinna eftir. Leiðbeinandinn fylgdist síðan með vinnunni, aðstoðaði eftir þörfum, benti á það sem betur mætti fara og mögulegar úrvinnsluleiðir. Hann fylgdist með framvindu nemandans og hjálpaði honum að teygja út ramma sinn og fjölga möguleikum sínum. Það var þó nemandinn sem réð ferðinni allan tímann.

Myndefni og vinnuaðferðir listamannanna eru mjög fjölbreytt og spegla persónuleika og sýn listamananna á lífið og umhverfi sitt.

Ásgeir fær sínar fyrirmyndir aðallega úr bókum um ýmis náttúrufyrirbrigði, svo sem fiðrildi, apa og hitabeltisgróður en einnig skjóta margvísleg abstraktform þar upp kollinum. Elín hefur aðallega unnið með akrýlliti í vetur og spunnið sínar myndir áfram og látið dálítið ráðast hvað fæðist. Gréta er mest í teiknimyndum sem hún vinnur af mikilli vandvirkni og byggir á nákvæmri undirbúningsvinnu. Guðmundur er ljóðrænn í sínum vatnslitaverkum. Hann hefur mestan áhuga á náttúrunni. Ingi Hrafn hefur sérstakan áhuga á kirkjum en svo er hann líka með fjallasyrpur að þessu sinni. Ísak sýnir akrýlmálverk þar sem tilbrigði við fugla, frumform og bakgrunnsliti ræður ferðinni. Tanya hefur hefur hins vegar þreyfað sig áfram í tilraunum með texta, leturgerðir og merki.

Sýningin er hluti af hátíðinni List án landamæra.

Hoffmannsgallerí er staðsett í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar á 4. hæð JL hússins við Hringbraut 121.

Sýningin er opin alla virka daga frá 9:00 – 17:00 og stendur fram á haust.

Listamennirnir eru:

Ásgeir Ísak Kristjánsson

Elín S.M. Ólafsdóttir

Gréta Guðbjörg Zimsen

Guðmundur Stefán Guðmundsson

Ingi Hrafn Stefánsson

Ísak Óli Sævarsson

Tanya Sjöfn Mangelsdorf


Leiðbeinandi: Kristinn G. Harðarson

sími: 897 6710