Sólrún Harðardóttir, náttúrufræðikennari, námsefnishöfundur og fyrrverandi Akademón gaf nýlega út umfangsmikinn og afar gagnlegan vef um náttúru Reykjavíkur. “Náttúra Reykjavíkur er mjög merkileg”, segir Sólrún. “Fáar borgir heimsins geta státað af öðru eins: villtum fuglum á tjörn, jökulsorfnum klöppum, laxveiðiám, ósnortnum fjörum, eyjum á sundum, lundum, gervigígum, steingervingum í setlögum, hrauni og jarðhita svo eitthvað sé nefnt.”
Á vefnum er fjallað um ýmislegt út frá jarðfræði, líffræði og landafræði. Sagt er frá landslagi, þróun byggðar, ólíkum búsvæðum, náttúruvernd og áhugaverðum stöðum í landi Reykjavíkur. Á vefnum eru einnig fjölbreytt verkefni. Allir geta sótt sér fróðleik á vefinn en hann er þó sérstaklega ætlaður börnum og er hugsaður þannig að þau vinni með hann í samstarfi við fullorðna, hvort sem það eru kennarar, leiðbeinendur í frístundastarfi, foreldrar eða aðrir ættingjar og vinir. Reglulega birtast fréttir á vefnum.
Maður, náttúra og sjálfsmynd
Náttúrulegt umhverfi er mikilvægt manninum. Það getur verið honum innblástur til sköpunar en jafnframt uppspretta vellíðunar. Hæfileikann til að njóta náttúru þarf að rækta og hlúa að. Útivist og vettvangsferðum fylgja oft dýrmætar upplifanir sem skipta miklu máli þegar stefnt er að því að þroska hjá börnum og fólki almennt auðmýkt og virðingu fyrir náttúrunni.
Heimkynni, einkum æskustöðvar, eru mikilvægur þáttur í sjálfsmynd einstaklinga. Að þekkja sína heimahaga gerir okkur sterkari og tilbúnari til að skilja og upplifa umhverfið annars staðar.
Hjartað í Akademíunni vettvangur áhugaverðra og gefandi samræðna
Sólrun sat í ReykjavíkurAkademíunni um tíma við vinnslu vefsins. Aðspurð hvernig veran í ReykjavíkurAkademíunni hafi gagnast henni við gerð þessa stórvirkis segir Sólrún: “Það var gott kompaní og umhverfi auk þess sem það hélt mér að verki. Veðurbarin og stundum innblásin af einhverju sem á veginum varð hvolfdi ég mér yfir verkefnið þegar á hólminn var komið og ég settist við skrifborðið í upphafi dags. Ekkert var á dagskrá annað en að sinna því. Jú, auðvitað þurfti ég af og til að standa upp, fá mér te, vesenast, fara í mat – spjalla. Stóra borðið, hjartað í akademíunni var vettvangur áhugaverðra og gefandi samræðna. Líkt og útiveran veittu samræður innblástur og fengu mig til að horfa á hlutina frá nýjum sjónarhornum og hugsa um eitthvað sem ég hefði annars ekki leitt hugann að. Gott var að leita ráða hjá akademónum og dýrmætt að kynnast þeim”.
Nánar um vefinn
Sólrún er höfundur vefsins og útgefandi. Margir veittu henni ráðgjöf en hér skal sérstaklega nefna Hrefnu Sigurjónsdóttur prófessor emeritus og Helgu Snæbjörnsdóttur kennara í Hlíðaskóla.
Þróunarsjóður námsgagna, Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna, Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg styrktu verkefnið.
Þá er bara eftir að skoða og lesa: natturareykjavikur.is