1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Hvað eru íslensk fræði? 20. maí

Hvað eru íslensk fræði? 20. maí

by | 20. May, 2009 | Fréttir

Félag íslenskra fræða kallar áhugamenn um íslensk fræði til málfundar klukkan 18 miðvikudaginn 20. maí í ReykjavíkurAkademíunni (JL húsinu). Málþingið er haldið í samvinnu við Sagnfræðingafélag Íslands, Félag þjóðfræðinga á Íslandi, Íslenska málfræðifélagið, Nafnfræðifélagið, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Fundurinn er öllum opinn. 

Þegar Félag íslenskra fræða var stofnað var því ætlað að vera fagfélag fyrir þá sem lokið höfðu háskólanámi í samnefndu fagi sem kennt var við Háskóla Íslands og störfuðu á því sviði. Fundargerðir félagsins bera þess vitni að skilgreining á hugtakinu hafi lítið vafist fyrir félagsmönnum. En eftir því sem tímar liðu fram hefur háskólanám í því sem áður hétu íslensk fræði greinst í sagnfræði og íslensku, sem aftur greinist í málfræði og bókmenntir. Sagnfræðingar og málfræðingar hafa stofnað sín eigin félög og sömuleiðis er orðið til nafnfræðifélag og félag fornleifafræðinga. Bókmenntir eru kenndar sem sjálfstæð fræðigrein við Háskólann og þjóðfræðinám er þar kennt á félagsvísindasviði. Félag íslenskra fræða starfar núorðið einvörðungu sem fræðafélag og leggur fram spurninguna: Hvað eru íslensk fræði?

Spurningin snýst þó ekki einungis um félagið sjálft því auðvelt er að færa rök fyrir því að rannsóknir á íslenskum heimildum um menningu, sögu og tungumál séu í engu frábrugðnar þeim rannsóknum sem fara fram á heimildum frá öðrum menningarsvæðum. Hvað eru þá íslensk fræði?

 

Til máls taka:

Þórhallur Eyþórsson – Íslenska málfræðifélagið

Gottskálk Þór Jensson – Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands

Sólveig Ólafsdóttir – Sagnfræðingafélag Íslands

Rósa Þorsteinsdóttir – Félag þjóðfræðinga á Íslandi

Guðrún Kvaran – Nafnfræðifélagið

Þórunn Sigurðardóttir – Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Að því loknu verður boðið upp á drykk og stuttar umræður.

Fundarstjóri er Lára Magnúsardóttir.