1. Forsíða
  2.  » 
  3. Útgáfa RA
  4.  » 
  5. Bækur
  6.  » Íslensk menning: Frigg og Freyja

Íslensk menning: Frigg og Freyja

by | 2. Apr, 2007 | Bækur, Fréttir, Ritraðir RA, Útgáfa RA

Ingunn ÁsdísardóttirÍslensk menning IV
Frigg og Freyja. Kvenleg goðmögn í heiðnum sið (2007)
Ingunn Ásdísardóttir

Hugmyndir síðari tíma manna um hina fornu, norrænu guði hafa mótast mjög af umfjöllun Snorra Sturlusonar í Snorra-Eddu. Samkvæmt þeim er Frigg æðsta gyðjan, enda eiginkona Óðins og aðrar gyðjur undir hana settar.

Í hinni nýju bók Ingunnar sprettur fram algerlega ný mynd af hinum forna goðaheimi þar sem gyðjurnar, og þó einkum Freyja, skipa miklu stærri sess en bæði Snorri og margir síðari tíma fræðimenn hafa talið. Gagnstætt þeim sýnir Ingunn fram á að átrúnaður á hina fornu frjósemisgyðju Freyju muni hafa verið mikill og útbreiddur um öll Norðurlönd allt fram að kristnitöku. Í ritum sínum gerir Snorri hlut Friggjar mun meiri en Freyju vegna þess að Frigg hentaði betur þeim kristnu siðahugmyndum sem einkenndu samtíma hans en hin lausláta frjósemisgyðja. Í rannsókn Ingunnar riðlast þessi snyrtilega mynd Snorra og jafnframt hrekur Ingunn hugmyndir margra síðari tíma fræðimanna um að Frigg og Freyja hafi í raun verið sama gyðjan.

Rannsókn Ingunnar er þverfagleg. Hún skyggnist í orðsifjar og ævafornar helluristur, kannar fornminjafundi og örnefni á Norðurlöndum. Enn fremur rannsakar hún allar textaheimildir: grísk og latnesk rit, hinar fornháþýsku Merseburgsæringar að ógleymdum eddukvæðum, dróttkvæðum og goðfræðilegu efni í fornum sögum.
Þetta er stórmerkilegt grundvallarfræðirit og um leið aðgengileg og skemmtileg lesning handa öllum þeim sem áhuga hafa á fornum fræðum og heiðnum trúarhugmyndum.

Gyðjur úr ólíkum áttum, ritdómur Bergsveins  Birgissonar í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 12. maí 2007

 

Íslensk menning er röð veigamikilla fræðirita sem fjalla um ýmsar hliðar sögu og menningar. Ritröðin er gefin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags og ReykjavíkurAkademíunnar.
Ritstjórar Adolf Friðriksson og Þorleifur Hauksson. Fjórar bækur hafa komið út:

Sveinn Yngvi Egilsson, Arfur og umbylting. Rannsókn á íslenskri rómantík. (1999). Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.
Guðmundur Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk. (2001) Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.
Torfi H. Tulinius, Skáldið í skrifstinni. Snorri Sturluson og Egils saga (2004) Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.
Ingunn Ásdísardóttir, Frigg og Freyja. Kvenleg goðmögn í heiðnum sið (2007) Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.

 

_____________________________________________________________________________________

Þessi texti er tekinn saman af Önnu Þorbjörgu Þorgrímsdóttur, 2. júlí 2024 meðal annars á grunni eftirfarandi heimilda:

Vefsafn.is, afrit af vef ReykjavíkurAkademíunnar, www.akademia.is, 10. desember 2007.
Vefsafn.is, afrit af vef ReykjavíkurAkademíunnar, www.akademia.is, 25. nóvember 2009