Íslensk menning VI
Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi.
Ingunn Ásdísardóttir.
Í flestöllum yfirlitsritum um norræna goðafræði eru jötnar sýndir sem óvinir goðanna, hálfgerðar ófreskjur sem hafa það eitt að markmiði að tortíma veröld goða og manna. Þannig er ímynd þeirra í Eddu Snorra Sturlusonar, og ekki að undra að í vitund fólks hafi hún á síðari tímum runnið saman við bergrisana og tröllin í þjóðsögunum.
Myndin sem Ingunn Ásdísardóttir bregður hér upp í könnun sinni á elstu heimildum um jötna og jötnameyjar er önnur og miklu flóknari. Jötnarnir tengjast sköpun heimsins, þeir búa yfir þekkingu á rúnagaldri og vitneskju um upphaf hans og örlög. Jötnameyjar eru undurfríðar og ýmsum sérstökum eiginleikum búnar. Samskipti goða og jötna eru tíð og margháttuð, og það eru fyrst og fremst æsirnir sem beita brögðum í þeim viðskiptum. Þeir sækjast eftir fróðleik úr fórum jötna og vilja ólmir komast yfir dætur þeirra.
Margs konar fornminjar, myndir á myndsteinum, skartgripir og munir af ýmsu tagi renna stoðum undir niðurstöður höfundar, og jafnframt kannar hún í því samhengi fyrirferð jötna í kenningum dróttkvæðaskálda. Þegar djúpt er skoðað bendir margt til að jötnar hafi verið einhvers konar átrúnaðargoð, hugsanlega persónugervingar jarðar og náttúru á forsögulegum tíma, áður en ásatrúin varð allsráðandi í átrúnaði fólks.
Jötnar hundvísir, norrænar goðsagnir í nýju ljósi er í senn tímamótaverk í alþjóðlegum rannsóknum á norrænni goðafræði og áhugavekjandi íslenskt fræðirit, lifandi og alþýðlega fram sett. Fyrri bók Ingunnar í þessari ritröð, Frigg og Freyja, kvenleg goðmögn í heiðnum sið, kom út 2007.
Ingunn Ásdísardóttir
Ingunn Ásdísardóttir er bókmennta- og þjóðfræðingur, leikstjóri og þýðandi. Hún hefur þýtt fjölda skáldverka auk fræðirita um trúarbrögð og trúarbragðasögu. Árið 2014 hlaut hún Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á færeysku skáldsögunni Ó – sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen. Árið 2007 kom út bókin Frigg og Freyja; Kvenleg goðmögn í heiðnum sið en fyrir hana hlaut Ingunn Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Ári seinna kom út bókin Örlög guðanna, norrænar goðsagnir í endursögn Ingunnar og myndlýstar af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur og var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ingunn lauk doktorsnámi í norrænni trú vorið 2018.
Ingunn er sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni.
Íslensk menning – ritröð
Íslensk menning er röð veigamikilla fræðirita sem fjalla um ýmsar hliðar sögu og menningar. Ritröðin er gefin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags og ReykjavíkurAkademíunnar.
Ritstjóri er Þorleifur Hauksson. Sex bækur hafa komið út:
Sveinn Yngvi Egilsson, Arfur og umbylting. Rannsókn á íslenskri rómantík. (1999). Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.
Guðmundur Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk. (2001) Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.
Torfi H. Tulinius, Skáldið í skrifstinni. Snorri Sturluson og Egils saga (2004) Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.
Ingunn Ásdísardóttir, Frigg og Freyja. Kvenleg goðmögn í heiðnum sið (2007) Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.
Haukur Ingvarsson, Andlitsdrættir samtíðarinnar. Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) Hægt að nálgast í opnum aðgangi á Rafhlöðinni. Smelltu hér.
Ingunn Ásdísardóttir, Jötnar hundvísir. Norrænar gosðagnir í nýju ljósi (2024). Bókin fæst m.a. hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.