Í dag var bók dr. Ingunnar Ásdísardóttur fræðikonu við ReykjavíkurAkademíunnar tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Bókin, Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi er VI bókin í ritröðinni Íslensk menning sem gefin út af Bókmenntafélaginu og ReykjavíkurAkademíunni. Ritstjóri er Þorleifur Hauksson fræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna.
Í flokknum fræðibækur og rit almenns eðlis voru einnig tilnefndar bækurnar:
- Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur
- Duna. Saga kvikmyndagerðarkonu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og Guðrúnu Elsu Bragadóttur
Rökstuðningur dómnefndar:
Í bók sinni Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi dregur Ingunn Ásdísardóttir upp áhugaverða mynd af jötnum og mögulega ólíku hlutverki þeirra en mótast hefur hingað til í vitund fólks. Með því að rannsaka sjálfstætt hlutverk jötna í öðrum heimildum en Eddu Snorra Sturlusonar virðist sem jötnar hafi gegnt mikilvægara hlutverki; verið aldnir og fróðir (hundvísir) en ekki ófreskjur. Bókin dregur fram hve lifandi vísindi þjóðararfurinn er og færir bæði fróðleiksfúsum aðgengilegt efni og leggur til málanna í rannsóknarheimi norrænnar goðafræði.
Nánari upplýsingar um tilnefningar til Fjöruverðlauna árið 2025
ReykjavíkurAkademían óskar Ingunni og öðrum höfundum bóka sem voru tilnefndar innilega til hamingju.