1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Málþing laugardaginn 9. maí

Málþing laugardaginn 9. maí

by | 9. May, 2015 | Fréttir, Málþing og raðir, Viðburðir RA

frett2„Góða þökk tilheyrendur,

bestu lesendur, öngva skrifari“

Handritamenning síðari alda

Í ráðstefnusal Þjóðarbókhlöðu laugardaginn 9. maí 2015 kl. 10:15‒16:30

Málþing til kynningar á niðurstöðum rannsókna sem unnar hafa verið innan fjögurra stórra rannsóknaverkefna styrkt af Rannsóknasjóði á árunum 2010‒15. Rannsókna­verk­efninin eru Prentsmiðja fólksinsHandrita- og bókmenning síðari alda (verkefnastjóri: Matthew Driscoll); Menningarlegt og félagslegt hlutverk íslenskra kvæða- og sálmahandrita eftir siðskipti (verkefnastjóri: Margrét Eggertsdóttir); Kvæðabók sr. Ólafs Jónssonar á Sönd­um: Greining, samhengi, dreifing (verkefnastjóri: Árni Heimir Ingólfsson); Margbreytileiki Njáls sögu (verkefnastjóri: Svanhildur Óskarsdóttir). Verkefnin eiga það sameiginlegt að beinast að handritum og hand­ritamenningu 17., 18. og 19. aldar, en efni og efnistök eru fjölbreytt. Meðal rannsóknarverkefna eru Njáluhandrit frá síðari öldum, teikningar og tónlist í hand­ritum, viðtök­ur og dreifing, tækifæriskvæði, alþýðufræðimenn og handritaskrifarar 19. aldar, lítt þekktar biblíuþýðingar, félagslegt og menningarlegt hlutverk kvæðahandrita, svo nokkuð sé nefnt. Rannsóknirnar voru unnar á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslensk­um fræðum, Árnasafns í Kaupmannahöfn og ReykjavíkurAkademíunnar með aðild Landsbókasafns Íslands ‒ Háskólabókasafns. Alls tóku 22 fræðimenn og stúdentar þátt í verkefnunum.

DAGSKRÁ

10:15‒10:20    Bragi Þorgrímur Ólafsson fagstjóri handritasafns Landsbókasafns Íslands ‒ Háskólabókasafns setur málþingið

10:20‒10:50    Clarence E. GladÍslensk biblíuhandrit

10:50‒11:20    Svanhildur Óskarsdóttir: Njála á nýöld: Vanrækt handrit Njáls sögu tekin til skoðunar

11:20‒11:40    Kaffihlé

11:40‒12:10    Þorsteinn Surmeli: Í hjáverkum teiknað: Um myndir við Njálu í sagnahandriti frá 19. öld

12:10‒13:00    Hádegishlé

13:00‒13:30    Þórunn Sigurðardóttir„Kostgæfilega samanhent og aðdregin“: Hvernig varðveittust kvæðasöfn skálda?

13:30‒14:00    Margrét Eggertsdóttir: Handritið sem söngbók, dægrastytting og dyggðaspegill

14:00‒14:30    Guðrún Laufey Guðmundsdóttir og Ingibjörg EyþórsdóttirKvæðabók sr. Ólafs Jónssonar á Söndum: Greining, samhengi, dreifing

14:30‒14:45    Bára Grímsdóttir og Chris Foster leika lög eftir sr. Ólaf Jónsson á Söndum

14:45‒15:00    Kaffihlé

15:00‒15:30    Sigurður Gylfi Magnússon: Hugtakið rými í handritafræðum síðari alda

15:30‒16:00    Matthew Driscoll: Til gamans og dægrastyttingar: Handrit Guðbrands á Hvítadal

16:00‒16:30    Davíð Ólafsson: Síðbúnir miðaldamenn eða lifandi þátttökumenning: Hugleiðingar um handritamenningu síðari alda

Ráðstefnustjóri: Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislu og stafrænnar endurgerðar hjá Landsbókasafni Íslands ‒ Háskólabókasafni

16:30‒17:30 Léttar veitingar

 

„Góða þökk tilheyrendur, bestu lesendur, öngva skrifari“

Handritamenning síðari alda

Útdrættir

Clarence E. Glad

Íslensk biblíuhandrit

Nokkur fjöldi handrita frá lokum 17. aldar til upphafs 20. aldar hafa að geyma þýðingar á Nýja testamentinu og einstökum ritum þess. Sjónum verður beint að þessu handritaða efni, umfangi þess og áhrifum, frá því að fyrst var farið að þýða rit Nýja testamentisins á íslensku með hliðsjón af grískunni við lok 17. aldar. Handritin veita áhugaverða innsýn í sjálfsprottna fræðastarfsemi er tengdist viðleitni manna til að varpa skýrara ljósi á merkingu frumtextans samhliða gagnrýni þeirra á útgefnar Biblíuþýðingar.

 

Svanhildur Óskarsdóttir

Njála á nýöld

Vanrækt handrit Njáls sögu tekin til skoðunar

Í erindinu verður sagt frá rannsóknarverkefninu Breytileiki Njáls sögu sem hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði árin 2011–2013. Markmið þess var ekki síst að beina sjónum að þeim handritum Njáls sögu sem lítt eru þekkt. Það á fyrst og fremst við um yngri handrit sögunnar, meðal annars þau sem geyma svokallaða Gullskinnugerð. Rætt verður um forsendur verkefnisins, þær niðurstöður og afurðir sem það hefur þegar getið af sér og næstu skref í rannsóknum á handritum Njáls sögu.

 

Þorsteinn Surmeli

Í hjáverkum teiknað

Um myndir við Njálu í sagnahandriti frá 19. öld

Bræðurnir Guðlaugur og Guðmundur Magnússynir fóru ungir að aldri í fóstur hvor á sinn bæinn á Fellsströnd í Dalasýslu á síðari hluta 19. aldar. Þegar Guðlaugur ákvað að hefja nýtt líf í Vesturheimi árið 1873 hafði hann lokið við að skrifa upp á annan tug Íslendingasagna og -þátta. Heimildir hans virðast hafa verið önnur handrit en hann lætur einnig fylgja með sögunum eigin teikningar, þar af er 21 mynd við Njálu. Bróðir hans tók svo við pennanum og bætti álíka mörgum sögum við handrit þeirra, Lbs 747 fol. og Lbs 748 fol., en hann hefur sennilega haft prentaðar bækur við höndina. Í fyrirlestrinum verður fjallað um handrit bræðranna sem bera vott um blómlega handrita­menningu við Breiðafjörðinn á síðari hluta 19. aldar, en þeir Guðlaugur og Guðmundur voru vinnumenn og voru sögurnar því í „hjáverkum uppskrifaðar“ eins og segir á fremsta blaði Lbs 747 fol. Sjónum verður sérstaklega beint að teikningunum við Njálu, staðsetningu þeirra innan textans og vali Guðlaugs á myndefni.

 

Þórunn Sigurðardóttir

„Kostgæfilega samanhent og aðdregin“

Hvernig varðveittust kvæðasöfn skálda?

Kvæðahandrit frá 17. öld samanstanda oftast af margvíslegum kvæðum eftir ýmis skáld – sjaldnast er um að ræða heil kvæðasöfn eða kvæðabækur einstakra skálda, nema um sé að ræða kvæðabálka eins og Passíusálma Hallgríms Péturssonar og Hugvekjusálma sr. Sigurðar Jónssonar í Presthólum, eða syrpur ákveðinna kvæðagreina eins og nýárssálma, vikusálma og þvíumlíkt. Þó eru nokkur dæmi um að skáld hafi tekið saman kvæði sín í kvæðasöfn á 17. öld og sum þeirra voru skrifuð upp síðar af öðrum. Í fyrirlestrinum verður skoðað hvernig kvæði og kvæðasöfn skálda varðveittust í handrita- og prentmenningu þessa tíma. Gert verður tilhlaup að því að svara eftirfarandi spurningum: Hverjir stóðu að framleiðslu og dreifingu slíkra safna? Hver var tilgangurinn? Hvaða niðurstöður má draga af því um menningarmótun eigenda handritanna?

 

Margrét Eggertsdóttir

Handritið sem söngbók, dægrastytting og dyggðaspegill

Í erindinu verður sagt frá rannsóknarverkefni sem styrkt var af Rannís á árunum 2010–2012. Kannað var menningarlegt og félagslegt hlutverk sálma- og kvæðahandrita á Íslandi eftir siðbreytingu. Valin voru handrit frá þremur mismunandi stöðum á landinu, Skálholti og suðvesturhluta landsins, Hólum í Hjaltadal og nágrenni og norðanverðum Vestfjörðum, en á þessum svæðum fór fram mikil handritaiðja. Markmiðið var að draga upp mynd af framleiðslu, notkun og viðtökum kveðskapar á síðari öldum. Handritin voru skoðuð út frá nýrri stefnu innan textafræðinnar sem kölluð hefur verið material philology og felst í því að rannsaka hvert handrit sem heild og kanna félagslegt, sögulegt og menningarlegt samhengi þeirra texta sem þar eru varðveittir.

 

Guðrún Laufey Guðmundsdóttir og Ingibjörg Eyþórsdóttir

Kvæðabók sr. Ólafs Jónssonar á Söndum

Greining, samhengi, dreifing

Séra Ólafur Jónsson (ca. 1560‒1627) á Söndum í Dýrafirði var eitt af höfuðskáldum Íslendinga á fyrri hluta 17. aldar. Ólafur safnaði kvæðum sínum saman í eitt handrit, sem var skrifað upp mörgum sinnum eftir hans tíð. Eiginhandarritið er því miður glatað en nú á dögum er vitað um 25 eftirrit kvæðabókarinnar. Kvæðabókin er einstök meðal annars fyrir þær sakir að við ríflega 50 kvæða hans standa nótur í handritum og aðeins fá þeirra hefur verið hægt að rekja til erlendra heimilda. Kvæðabókin hefur enn ekki verið gefin út í heild á prenti, auk þess sem ýmislegt er enn á huldu varðandi uppskriftir hennar í handritum, innbyrðis tengsl þeirra og dreifingu efnisins. Markmið verkefnisins er heildarúttekt á Kvæðabók sr. Ólafs, bæði hvað varðar bókmenntalega og tónlistarlega greiningu en ekki síður dreifingu kvæðanna í handritum á 17. og 18. öld. Bókmenntafræðingar, handritafræðingar og tónlistarfræðingar taka þátt í rannsókninni, sem ætlað er að skoða hvaðan handritin 25 sem varðveist hafa af kvæðasafninu eru upprunnin, hvernig þau dreifast um landið, og að skýra innbyrðis tengsl þeirra.

 

Matthew Driscoll

Til gamans og dægrastyttingar

Handrit Guðbrands í Hvítadal

Guðbrandur Sturlaugsson (1820‒1897) í Hvítadal var einn af mörgum 19. aldar handrita­skrifurum úr alþýðustétt sem hlotið höfðu litla sem enga formlega menntun, en vörðu tíma sínum til að skrifa upp texta af ýmsu tagi sér og öðrum til ánægju og skemmtunar. Með hendi Guðbrands hafa varðveist a.m.k. 22 handrit. Ólíkt nágranna hans, Magnúsi Jónssyni í Tjaldanesi, sem þegar á unga aldri var farinn að skrifa upp texta, virðist Guðbrandur hafa verið kominn um miðjan aldur þegar hann hóf sinn skrifaraferil, e.t.v. ekki fyrr en hann fluttist í Saurbæjarhrepp og kynntist Magnúsi. – Áhugi hans beindist einkum að óbundnu máli, fornaldar- og riddarasögum, en jafnframt Íslendingasögum og þjóðlegum fróðleik sem að stórum hluta á rætur að rekja til Gísla Konráðssonar. Þó virðist sem Guðbrandur hafi sjálfur samið nokkuð af því efni.

Handrit Guðbrands eru athyglisverð á margan hátt, ekki síst vegna þeirra athugasemda sem hann gerir um þá texta sem hann skrifar upp. Þær snúast einkum um sögulegt gildi sagnanna ‒ sem oftast var ekki sérlega mikið. Guðbrandur viðurkennir þetta fúslega, en segir þó iðulega að þrátt fyrir lítið sögulegt gildi megi lesa þær sér til gamans og dægrastyttingar. Nokkrar sögur með hendi Guðbrands finnast ekki í öðrum handritum en þeirra Magnúsar í Tjaldanesi, en þeir skiptust gjarnan á handritum. Nokkur þessara verka hafa hugsanlega verið til á miðöldum en ekki varðveist í eldri handritum en önnur gæti maður haft grun um að þeir félagar hafi sjálfir sett saman.

 

Sigurður Gylfi Magnússon

Hugtakið rými í handritafræðum

síðari alda

Skoðaður verður sá vettvangur samfélagsins sem má greina á milli tveggja skilgreininga á hugtakinu menning; annars vegar hinnar lærðu menningar yfirstéttarinnar og hins vegar hversdagslífs alþýðunnar (þess sem flokkað er sem alþýðumenning). Á milli þessara póla fór fram samræða og flæði sem hafði áhrif á samfélagið langt út fyrir þann ramma sem hefð­bundnum rannsóknum hefur verið markaður. Á þessu „gráa svæði“ (e. in-between-spaces) var statt fólk sem fór sínu fram og myndaði ramma utan um hugsun sína og hugmynd­ir sem smátt og smátt hafði bæði áhrif á hvernig pólarnir tveir þróuðust og samfélagið allt réð ráðum sínum.

Um aldamótin 1900 tók Vestfirðingurinn Magnús Hj. Magnússon – skáldið á Þröm – saman lista yfir skáld og fræðimenn, sem hann nefndi við annað tækifæri skáldyrðinga. Um er að ræða lista með rúmlega 200 nöfnum og um 100 þeirra koma frá svæðum sem hann þekkti vel til á Vestfjörðum. Samsetning hópsins verður rædd og reynt að rýna í hvers vegna þessi hópur komst á lista Magnúsar. Unnið er með ákveðinn kjarna fræðimanna, um það bil fimm til sjö alþýðufræðimenn, og verða þeir tengdir við lista Magnúsar og rætt um þýðingu þessa netverks fyrir starfsemi þeirra.

 

Davíð Ólafsson

Síðbúnir miðaldamenn eða lifandi þátttökumenning

Hugleiðingar um handritamenningu síðari alda

Á níunda áratugi tuttugustu aldar, og enn frekar á þeim tíunda, fór að bera á rannsóknum og ritsmíðum þar sem fjallað er um framleiðslu, miðlun og neyslu á handrituðu efni af ýmsu tagi á öldunum eftir tilkomu prenttækni sem kennd er við Johan Gutenberg. Undir þann flokk falla m.a. frumsamin rit og uppskriftir bæði bókmenntatexta, fræðilegra texta og eftir atvikum pólitískra eða samfélagslegra skrifa, enn fremur persónulegar heimildir eins og sendibréf og dagbækur og hversdagsleg, hagnýt skrif sem tengjast t.d. heimilishaldi eða búskap.

Þessi bylgja hefur undanfarna áratugi gengið yfir lönd og álfur og eiga þær rannsóknir sem henni tilheyra það sameiginlegt að hafa dregið fram nýjar hliðar á bókmennta-, menningar- og hugarfarssögu bæði árnýaldar og nýaldar. Ekki er um að ræða samstæðan skóla enda viðfangsefni fjölbreytt og fræðilegar nálganir með ýmsu móti. Þessar rannsóknir hafa sótt til, og lagt til, fjölmargra undirgreina s.s. bóksögu (e. book history), nýju textafræðinnar (e. new philology) og hinna nýju læsisrannsókna (e. new literacy studies). Í þessu erindi verða íslenskar rannsóknir á sviði handritafræða síðari alda tengdar hinu alþjóðlega rannsókna­samhengi og vikið jafnt að hinum sameiginlegu einkennum sem og því sem kann að vera sérstakt við íslenska handritamenningu á síðari öldum.