1. Forsíða
  2.  » 
  3. Miðstöð fræðafólks
  4.  » Rannsóknaumhverfið

Rannsóknaumhverfið

Opinber fjármögnun rannsókna

Hlutverk fræðasamfélagsins utan háskólanna er margþætt. Á þeim vettvangi fer fram nokkur hluti rannsókna og þekkingarmiðlunar hug- og félagsvísindanna á Íslandi, þar gefst rannsakendum að nýta menntun sína til þess að iðka sín fræði og byggja upp sérþekkingu og tengsl sem þarf til áframhaldandi rannsókna, þar er skjól fyrir hugmyndir og þekkingu sem hverju sinni rýmist ekki innan opinberra háskóla og stofnana og þar starfar fræðafólk að fjölbreyttum verkefnum sem eru dýrmæt fyrir menntakerfið, listir og menningu í víðum skilningi og mikilvægur efniviður nýsköpunar og frumkvöðlastarfs.

Þó gætir tilhneigingar til að stjórnvöld og þeir sem stýra vísindasamfélaginu horfi fram hjá fræðasamfélaginu utan háskólanna þegar kemur að stefnumótun á sviði rannsókna og nýsköpunar. Það sést meðal annars á því að aðgengi sjálfstætt starfandi fræðafólks að opinberum rannsóknasjóðum er orðið mjög takmarkað að hægt er að tala um kerfisbundna útilokun sem heftir viðgang rannsókna og þekkingarsköpunar.

 

Takmarkað aðgengi fræðafólks sem starfar utan háskólana

Þetta kom skýrt í ljós við undirbúning málþingsins „Sjálfstæðir rannsakendur – umhverfi og áskoranir,“ haustið 2022 og var staðfest í framsögum og umræðum á málþinginu eins og sannreyna má á upptökum frá því. Í kjölfarið vann málþingsstjórnin skýrsluna „Opinber fjármögnun rannsókna fræðafólks sem starfar sjálfstætt. Tillögur til úrbóta“ Sú mynd sem þar teiknast upp sýnir að aðgengi fræðafólks sem starfar utan háskólanna að opinberu fjármagni er mjög takmarkað og hefur versnað mikið á 20 árum.

Annars vegar hefur Rannsóknasjóður frá því hann var stofnaður árið 2004 lagt vaxandi áherslu á að fjármagna doktorsnám og rannsóknahópa og nú lúta styrkveitingar úr sjóðnum skilyrðum sem erfitt er fyrir fræðafólk sem starfar sjálfstætt að uppfylla. Hins vegar vegna alvarlegrar vanfjármögnunar Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna sem verður að teljast  meginstoð rannsókna fræðasamfélagsins utan háskólanna. En frá árinu 2015 til 2022 óx Starfslaunasjóður einungis um 10 miljónir, fór úr 35 í 45 miljónir. Á sama tíma óx sá hluti Rannsóknasjóðs sem aúthlutar til nýrra verka um 700 miljónir, fór úr 724 miljónum í 1,4 miljarð.

 

Nýr rannsóknasjóður sjálfstætt starfandi fræðafólks

Staðan er grafalvarleg. Til þess að bregðast við og auka aðgengi fræðafólks sem starfar sjálfstætt að opinberu fjármagni til rannsókna þá leggur ReykjavíkurAkademían til að Starfslaunasjóðurinn verði stækkaður í 550 miljónir á árinu 2023, að heiti sjóðsins verði breytt í Rannsóknasjóð sjálfstætt starfandi fræðafólks og að sjóðnum verði sett lög sambærileg lögum um Rannsóknasjóð.

Röksemdafærsluna má skoða í skýrslunni en markmið tillagnanna er að jafna aðgengi fræðafólks sem starfar sjálfstætt og þess sem gegnir akademískum stöðum að opinberum styrkjum til rannsókna. Einnig að efla áhugadrifnar rannsóknir og auka fjölbreytni þeirra. Öflugur rannsóknasjóknasjóður myndi einnig tryggja nýliðun og sérfræðiþekkingu íslensks fræðasamfélags og að skila samfélaginu niðurstöðum rannsóknanna á íslensku. Hlutverk sjóðsins og mikilvægi fyrir íslenskt fræðasamfélag er því umtalsvert eins og sjá má á eftirfarandi lista:

  • Jafnar samkeppnisstöðu fræðafólks hvað varðar aðgang að opinberu fjármagni óháð því hvort það gegnir stöðu við háskóla eða starfi sjálfstætt að rannsóknum og fræðamiðlun.
  • betri nýting menntunar á sviði hug- og félagsvísinda.
  • eykur samkeppnishæfni einstaklinga á vinnumarkaði og auðveldar þeim að nýta menntun sína og hugvit.
  • styður ungt fræðafólk í upphafi akademísks ferils þess og tryggir nýliðun akademísks starfsfólks háskólanna.
  • gerir fræðafólki kleift að velja sér viðfangsefni byggt á áhuga þess og þekkingu
  • fangar upp þekkingu sem ekki fær hljómgrunn innan núverandi sjóðakerfis.
  • fjölgar rannsóknum á breiðara sviði og eykur þannig sveigjanleika og fjölbreytni háskóla- og rannsóknasamfélagsins.
  • skapar brú milli háskólanáms og atvinnulífs.
  • auðveldar nýdoktorum frá erlendum háskólum að fóta sig í íslensku rannsóknaumhverfi.
  • bætir aðgengi samfélagsins að nýrri þekkingu ritaðri á íslensku sem efla og auðga íslenskt samfélag.
  • styður þá sem lokið hafa háskólagráðu til þess að miðla rannsóknum sínum til samfélagsins.
  • bætir aðgengi að rannsóknum nýdoktora frá erlendum háskólum.
  • auðveldar frumkvöðlum að nálgast nýjar hugmyndir og hasla sér völl á atvinnumarkaði í krafti hugvits.
  • skilar samfélaginu þekkingu sem styður við uppbyggingu nýsköpunarhugsunar og fyrirtækja á sviði fræða.
  • styður við fræðafólk sem í lok starfsævinnar vill miðla þekkingu sinn til samfélagsins.
  • auðveldar fræðafólki sem starfar sjálfstætt að koma á samstarfi við erlenda háskóla og þar með aukna sókn í evrópska sjóði.
  • auðveldar menntuðu fólki að starfa óháð staðsetningu og styður þar með við æskilega byggðaþróun.
  • bætir nýtingu fjármagns með hlutfallslegrar lækkunar kostnaðar við utanumhald og veitingu styrkja.

Til þess að rödd fræðafólks sem starfar sjálfstætt ómi meðal stjórnvalda og þeirra sem móta vísindastefnu landsins þá hvetur ReykjavíkurAkademíunnar allt fræðafólk sem starfar eða hefur starfað utan háskólanna að rannsóknum og þekkingarmiðlun til þess að gerast félagar, nýta þjónstu ReykjavíkurAkademíunnar og að svara, þegar þar að kemur, árlegri spurningarkönnun um verkefnin og fjármögnun þeirra.


Ofangreindur texti byggir að hluta til á greininni ,,Undan huliðshjálminum. Fræðasamfélagið utan háskólanna”, sem Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir og Lilja Hjartardóttir rituðu og birtist í Sögu 2023 LXI:I

Umsókn um vinnuaðstöðu

Prentari og öryggiskerfi

Erindi og birtingar