Daníel Guðmundur Daníelsson hóf nýlega störf í ReykjavíkurAkademíunni. Daníel útskrifaðist með BA-gráðu í sagnfræði árið 2019 og var hluti af rannsóknarteymi öndvegisverkefnis Rannís Fötlun fyrir tíma fötlunar árið 2018. Í kjölfar þeirrar rannsóknar stofnaði Daníel listasýninguna Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld árið 2019 í samstarfi við Myndlistaskólann í Reykjavík, þar sem teiknað var upp úr yfir 30 mannlýsingum af eftirlýstum Íslendingum. Rannsóknir Daníels lúta að jaðarhópum í Alþingisbókum Íslands 1570-1800 þar sem má meðal annars finna yfir 200 mannlýsingar. Annálarnir 1400-1800 eru einnig til rannsóknar undir sömu formerkjum.
Í haust (2021) verður sú rannsókn birt í bókinni Þættir af sérkennilegum Íslendingum í ritröðinni Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar í ritstjórn Sigurðar Gylfa Magnússonar prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, þar sem þrjár skrár verða birtar ásamt greininni „„Feilinn í æðri manna augsýn“ Mannlýsingar í Alþingisbókum Íslands frá 17. og 18. öld“ sem stefnt er á að verði til umfjöllunar í málstofu á Söguþingi árið 2022.
ReykjavíkurAkademían býður Daníel velkominn í hóp fræðimannanna í Þórunnartúni 2.